Ban heitir að beita sér af alefli til stuðnings upprætingu ofbeldis gegn konum

 Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að mannréttindabrot gegn konum grafi undan þróun, friði og öryggi heilu þjóðfélaganna. Í yfirlýsingu í tilefni alþjóðlegs baráttudags til stuðnings upprætingu ofbeldis gegn konum, segir framkvæmdastjórinn það sérstakt áhyggjuefni hve oft gerendur sleppi við refsingu, jafnvel þótt borin hafi verið kennsl á þá., sérstaklega ef þeir tilheyri her eða lögreglu. “Alltof víða er nauðgun talin slík smán að konur forðast dómstólana sem ættu að vernda þær. Í sumum ríkjum er konur beittar tvöföldu ofbeldi: fyrst þegar glæpurinn sjálfur er framinn og síðan eru þær ranglega sakaðar um hórdóm og jafnvel refsað í kjölfarið,” segir Ban Ki-moon.

 

Ban á fundi öryggisráðsins um friðargæslu í síðustu viku.

 

 

Hann nefndi sérstaklega nýleg dæmi frá Kongó og Haíti.

“Í norður Kivu í Kongó hafa 350 nauðganir verið skráðar á mánuði og oft sæta fórnarlömbin limlestingum á kynfærum. Aldur fórnarlambanna er enn meira áhyggjuefni. Á sumum átakasvæðum á Haíti hefur helmingi ungra kvenna verið nauðgað eða þeim misþyrmt kynferðislega. Af þeim fáu konum sem leita á náðir laganna er þriðjungur undir þrettán ára aldri. Fyrr á þessu ári geysaði óöld í Líberíu og þar var helmingur þeirra sem ráðist var á undir 12 ára aldri, sumar höfðu ekki náð fimm ára aldri.”

Framkvæmdastjórinn sagði að samþykkt ályktunar öryggisráðsins númer 1820 nú í sumar, væri mikilvæg í ljósi þess að þar væri því lýst yfir að beiting kynferðislegs ofbeldis í átökum, varðaði frið og öryggi og kæmi því til kasta öryggisráðsins.

 “Samkvæmt ályktuninni verða friðargæslusveitir SÞ að sinna sérstaklega vernd kvenna og barna.”

Ban heitir því í ávarpi sínu að beita sér fyrir að árangur náist í þessari baráttu en hann hefur ýtt úr vör herferð Sameinuðu þjóðanna “UNiTE to end violence against women” til að efla vitund, pólitískan vilja og fjársstuðning við málefnið. 

Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna Navi Pillay lagði áherslu á í yfirlýsingu sinni í tilefni baráttudagsins að auka þyrfti hlut kvenna friðarviðræðum og í viðleitni til að uppræta refsileysi nauðgara og annara kynferðislegra glæpamanna.

“Ofbeldi gegn konum er gríðarlegt vandamál um allan heim,” sagði Pillay “og á mörgum átakasvæðum má líkja ástandinu við faraldu. Nærri allir sem hlut eiga að máli vanrækja að berjast gegn þessu. Nauðgun er glæpur sem ber að refsa fyrir.”

Pillay fjallaði einnig sérstaklega um ástandið í Kongó “Hundruð þúsunda kvenna hefur verið nauðgað, þær sætt barsmíðum, þrælkun eða jafnvel myrtar undanfarinn áratug í austurhluta Kongó, og nánast engum hefur verið refsað fyrir þessa glæpi.”