Augliti til auglitis við síðasta geirfuglinn

Uppstoppaði geirfuglinn í geymslunni í Brussel.
Uppstoppaði geirfuglinn í geymslunni í Brussel. Mynd. Björn Malmquist/RÚV

Síðasti geirfuglinn. Líffræðileg fjölbreytni. COP16.

Þarna var hann. Síðasti geirfuglinn. Hann var að vísu ekki mikill fyrir fugl að sjá. Vissulega um áttatíu sentímetra hár, en með ofurlitla vængi, enda ófleygur. Eiginlega virkaði hann ekkert framúrskarandi innan um vængmikla albatrossana, litríka páfuglana og haukfrána fálkana í geymslum Konunglegu náttúruvísindastofnunarinnar í Brussel.

Og jafnvel þó hann væri öðrum fuglum fegurri, hvers vegna væri hann þá í geymslu en ekki til sýnis innan um kjörgripi safnsins? Safnsins sem státaði af alls kyns gersemum náttúrunnar frá grameðlum til litskrúðugra fiðrilda og sjaldgæfra eðalsteina? Ástæðan fyrir að hann er ekki til sýnis Pétri og Páli til ánægju er sú að hann er einstakur.

DNA rannsókn sýnir að hér er um að ræða annan geirfuglanna sem drepnir voru í Elday 1844
DNA rannsókn sýnir að hér er um að ræða annan geirfuglanna sem drepnir voru í Elday 1844. Mynd: Árni Snævarr/UNRIC

Of verðmætur til að vera til sýnis

Uppstoppaði geirfuglinn, fjarri sjónum almennings, er að öllum líkindum annar tveggja síðustu geirfuglanna í heiminum. Síðasta parsins sem lifði á jörðunni og með dauða þeirra á Íslandi hafði tegundinn verið útrýmt.

Fuglinn hefur verið á meðal verðmætustu gripa belgísku stofnunarinnar í 178 ár. Svo verðmætur er hann að ekki er talið óhætt að hafa hann til sýnis. Tíðindamaður UNRIC og fréttaritari RÚV þurftu sérstakt leyfi til að fá að sjá fugli og mynda.

„Nú er hann ekki lengur til sýnis því hann er svo dýrmætur,“ staðfesti Olivier S. G. Pauwels sýningarstjóri hjá konunglegu náttúruvísindastofnuninni þegar hann sýndi uppstoppaða geirfuglinn. „Það eru aðeins nokkur eintök eftir í söfnum í heiminum.”

Ókjör fugla eru í vörslu belgíska safnsins
Ókjör fugla eru í vörslu belgíska safnsins. Mynd: Árni Snævarr/UNRIC

Kapphlaup um síðustu fuglana

Geirfuglinn var tiltölulega algeng sjón á ströndum norður-Atlantshafsríkja hvort heldur sem er í Kanada eða á Norðurlöndum og Bretlandseyjum. Hann var veiddur af miklu kappi, enda kjötmikill, og svo fór að honum fór mjög fækkandi þegar líða tók á nítjándu öldina. Kannski engin furða því fuglinn var auðveld bráð enda ófleygur.

Þegar síðustu fuglarnir voru drepnir árið 1844 var það alkunna á meðal vísindamanna að geirfuglinn væri í mikilli útrýmingarhættu. Engin tilraun var þó gerð til að friða hann. Þvert á móti var kapphlaup á milli vísindamanna og náttúrugripasafna um að næla sér í síðustu fuglana til að geta stoppað þá upp og hafa til sýnis.

Olivier Pauwels og Björn Malmquist fréttaritari RÚV í Brussel.
Olivier Pauwels og Björn Malmquist fréttaritari RÚV í Brussel. Mynd: Árni Snævarr

„Söfn þurftu á því að halda að laða til sín fólk og til þess þurftu þau að bjóða upp á öndvegis tegundir,“ segir Pauwels. „Mér er ekki kunnugt um samhengið á þeim tíma þegar hann var keyptur og hvort það var vitað að hann væri í útrýmingarhættu eða væri þegar útdauður. Hann passaði hins vegar líklega vel við það sem safnið taldi sig þurfa að bjóða upp á í sýningarsölum til að laða fleira fólk að. Um leið þurfti að fullnægja óskum vísindamanna sem störfuðu við safnið.“

Merkimiði sem sýnir að fuglinn kom til safnsins, keyptur af Frank kaupmanni 1846.
Merkimiði sem sýnir að fuglinn kom til safnsins, keyptur af Frank kaupmanni 1846. Mynd: Árni Snævarr/UNRIC

DNA rannsóknir benda til Belgíu

Nýlegar DNA rannsóknir benda eindregið til þess að þessi geirfugl í fórum konunglegu belgísku náttúrufræðistofnunarinnar, sé annar tveggja síðustu geirfuglanna. Á merkingunni sést að hann var keyptur af Frank nokkrum, hollenskum kaupmanni, árið 1846, tveimur árum eftir að hann var drepinn.

Saga síðustu geirfuglanna er þekkt, þökk sé breskum náttúrufræðingum, sem komu til Íslands 1858. Þeir vildu ganga úr skugga um hvort lifandi geirfuglar leyndust einhvers staðar. Þess í stað fengu þeir staðfest að slíkt væri um seinan. Þeir tóku viðtöl við bændur og í ljós kom að til þeir höfðu veitt síðustu fuglana til að anna eftirspurn erlendra safna.

Geirfugl
Geirfugl á safni í Glasgow. Wikimedia commons.

Þrír Íslendingar sögðu þeim frá því að þeir hefðu haldið út í Eldey að áeggjan dansks kaupmanns, sem vissi að gott verð fengist fyrir fuglana.  Tveir geirfuglar sem þeir komu auga á reyndust þeim auðveld bráð.

„Þeir sátu keikir, alveg makalaust að sjá þá‘“, sagði Ketill Ketilsson þegar hann rifjaði upp veiðiferðina 14 árum síðar fyrir bresku vísindamönnunum.

Dagbók bresku vísindamannanna er varðveitt í háskólabókasafninu í Cambridge og þar er skráð nákvæm frásögn af drápi síðustu geirfuglanna eins og Gísli Pálsson prófessor emeritus í mannfræði hefur skýrt frá í bók sinni Fuglinn sem gat ekki flogið.

ELDEY
Eldey. ©Dagur Brynjólfsson/ WikimediaCommons

„Kyrkti fuglinn undir lóðréttu berginu“

Ketill Ketilsson sagði Bretunum frá því að þar sem hann elti ófleyga fuglanna á tindi Eldeyjar hafi „runnið á hann tvær grímur.” Hvort honum bauð við verknaðinum eða sjötta skilningarvitið sagði honum að ódæðisverk væri í aðsigi munum við aldrei vita. Ekkert hik var á félaga hans Sigurði Ísleifssyni.  Honum sagðist svo frá að „fuglinn stikaði áfram eins og manneskja en hreyfði fæturna snöggt“. Hann elti hann að bjargbrúninni og náði „hann fuglinum við hengiflugið og með sjóinn beint fyrir neðan sig. Þegar hann „tók um hálsinn á fuglinum blakaði hann vængjunum eilítið til hliðar og hann kyrkti fuglinn þar sem þeir voru beint undir lóðréttu berginu.”

Þetta var síðasti geirfuglinn. Tegundinn hafði nú orðið aldauða að bráð.

John Gerrard Keulemans/Public domain/WikimediaCommons

Hötumst ekki við drápsmennina

Frásögnin hér að ofan er fengin úr bók Gísla Pálssonar. Þótt einsdæmi sé að hægt sé að tímasetja aldauða tegundar og nafngreina drápsmenn síðustu fuglanna varað Gísli við því  í viðtali við UNRIC, þegar bókin kom út á íslensku 2020, að skella skuldinni á veiðimennina. Líta beri á aldauða sem lengra ferli.

„Þetta er afar dramatísk saga og var að hluta til það sem dró mig að frásögn Bretanna um síðustu veiðferðina,” segir Gísli. „Hins vegar væri það einföldun að draga veiðimennina til ábyrgðar og einblína á dráp síðustu fuglannna. Útdauðinn átti sér fyrst og fremst stað með miklum veiðum á Nýfundnalandi á 18.öld. Atburðirnir á Íslandi á fimmta áratug nítjándu aldar eru smámunir.”

Örlög Geirfuglsins hefur verið sögð kennslustund í sögu um fjölbreytni lífríkisins.

Uppstoppaðir fuglar eru um allt í safninu
Uppstoppaðir fuglar eru um allt í safninu. Mynd: Árni Snævarr/UNRIC

Af hinu góða að þeir séu til á söfnum

„Það er af hinu góða að við höfum sýnishorn á söfnum,” segir Pauwels sýningarstjóri.  „Við getum sýnt fólki það sem var einu sinni til og það sem hefur þegar horfið af yfirborði jarðar þökk sé manninum. Fólk fær betri tilfinningu fyrir þessu með því að hafa raunverulegt dæmi fyrir augnum. Við finnum fyrir því sem einu sinni var til og að við höfum tapað einhverju.”

Olivier Pauwels hjá Konunglega belgísku náttúrufræðistofnuninni.
Olivier Pauwels hjá Konunglega belgísku náttúrufræðistofnuninni. Mynd: Árni Snævarr/UNRIC

Vissulega eiga örlög geirfuglsins meira erindi við okkur en nokkru sinni fyrr, nú þegar við stöndum frammi fyrir aldauða fjölda tegunda af völdum mannkynsins. Þessa dagana koma fulltrúar ríkisstjórna, fræðaheimsins og aðgerðasinna saman í Cali í Kólombíu á þýðingarmikla ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni.

Úrræði eru til -vilja er þörf

„Við höfum úrræði til að bjarga flestum tegundum. Það er spurning um pólitískan vilja að setja lög og fylgja þeim eftir til að stofna þjóðgarða og verndarsvæði og halda þeim við“, segir Pauwels.

Þetta er þó hægara sagt en gert, þegar mannkyninu fjölgar og þéttbýlissvæði stækka sífellt á kostnað guðsgrænnar náttúrunnar.

COP16 Ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni
COP16 Ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni

COP16 

Ráðstefna Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni stendur yfir í Kólombíu frá 21.október til 1.nóvember 2024. Hún gengur undir nanfinu COP16, því hún er sextánda ráðstefna aðildarríkja samnings Sameinuðu þjóðanna um verndun lífríkisns.

Þema COP16 er Friður við náttúruna (Peace With Nature). Þetta er fyrsta ráðstefnan af þessu tagi frá því svokallaður Kunming-Montreal rammasamningurinn um líffræðilega fjölbreytni var samþykktur á COP15 í Montreal í Kanada. Á ráðstefnunni eiga aðildarríki að sýna fram á með hvaða hætti þau ætla að aðlaga starf sitt og aðgerðaáætlanir að rammasamningnum.

Sagt verður nánar frá síðasta geirfuglinum í fórum Konunglega belgísku náttúrufræðistofnunarinnar í fréttum RÚV innan skamms.