Átök í Líbanon : Hvað er UNIFIL?

Friðargæslusveitir Sameinuðu þjóðanna eru oft kallaðar "Bláu hjálmarnir" eftir einkennishjálmunum.
Friðargæslusveitir Sameinuðu þjóðanna eru oft kallaðar "Bláu hjálmarnir" eftir einkennishjálmunum. Mynd: UN Photo/Pasqual Gorriz

Friðargæsla Líbanon

Friðargæslusveit Sameinuðu þjóðanna (UNIFIL) hefur verið staðsett við svokallaða Bláu línu”, sem skilur að Líbanon og Ísrael frá því á áttunda áratug síðustu aldar. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna endurnýjaði umboð hennar til eins árs í lok ágúst.  

Hér er ýmislegt sem þarft er að vita um UNIFIL, eða „the UN Interim Force in Lebanon,” bráðabirgðasveit Sameinuðu þjóðanna í Líbanon.

Umboð Öryggisráðsins

28.ágúst 2024 samþykkti Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna einróma ályktun 2749 (2024) og framlengdi þar með umboð sveitarinnar til loka ágúst 2025.

Þrímennt á mótorhjóli við stöð kóreskra friðargæsluliða hjá
Þrímennt á mótorhjóli við stöð kóreskra friðargæsluliða hjá UNIFIL. Photo/Pasqual Gorriz

UNIFIL var hleypt af stokkunum af Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í mars 1978 í kjölfar innrásar Ísraels í Líbanon. Umboð hennar þá var að staðfesta brotthvarf ísraelskra sveita frá Líbanon, endurreisa alþjóðlegan frið og öryggi og aðstoða líbönsku stjórnina við að endurreisa vald sitt á svæðinu.

Hins vegar var það ekki fyrr en árið 2000 sem ísraelskar sveitir hurfu á braut. Sameinuðu þjóðirnar skilgreindu 120 kílómetra langt svæði, svokallaða „Bláu línu,” sem UNIFIL fylgist með.

Eftir mánaðarlöng blóðug átök Ísraels og Hisbollah 2006, jók Öryggisráðið umboð sveitarinnar með endurnýjaðri ályktun númer 1701 og bætti við vopnahléseftirliti í þeim átökum við starfið.

UNFIIL-liðar að störfum.
UNFIIL-liðar að störfum. Mynd: UN Photo/Pasqual Gorriz

Hvað hefur UNIFIL sagt um árásir Ísraels á Líbanon?

UNIFIL lýsti „djúpum áhyggjum sínum” 6.október af aðgerðum Ísraelshers nærri stöð sveitarinnar á líbönsku landi.

„Loftárásir og landárásir Ísraelshers hafa beinst að skotmörkum yfir alla Bláu línuna,“ sagði Stéphane Dujarric talsmaður Sameinuðu þjóðanna og sagði að Hisbolla hefði gert tugi árása á sama tíma, bæði til að hindra framrás Ísraela og á norður-Ísrael.

UNIFIL hefur líka sætt árásum. Að sögn UNIFIL hafa fimm friðargæsluliðar særst, stöðvar og mannvirki UNIFIL eyðilagst og mikilvægar ferðir sveitarinnar verið stöðvaðar.

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjoðanna hefur fordæmt þessi atvik. „Árásir á friðargæsluliða eru brot á alþjóðalögum, þar á meðal alþjóðlegum mannúðarlögum. Slíkt getur falið í sér stríðsglæpi,“ sagði í yfirlýsingunni hans.

Friðargæsluliðar aðstoða íbúana eftir þörfum.
Friðargæsluliðar aðstoða íbúana eftir þörfum. Mynd: UN Photo/Pasqual Gorriz

Hvað gera friðargæsluliðarnir?

Friðargæsluliðar UNIFIL leika lykilhlutverk í að koma í veg fyrir óætlaða stigmögnun og misskilning á milli Ísraels og Líbanons með samskiptakerfi sveitarinnar.

Friðargæsluliðar fara reglubundið í eftirlitsferðir á vettvangi og skýra frá brotum á ályktun 1701.

Þeir styðja einnig líbanska herinn með þjálfun, aðstoða hann við að beita sér í suður-Líbanon með það fyrir augum að þeir taki yfir allt öryggisstarf sem friðargæsluliðar sinna nú.

Friðargæsluliðar halda stöðum sínum og halda áfram að hrinda í framkvæmd þeim verkum sem þeim eru falin á ályktunum Öryggisráðsins. Hins vegar er allt starf þeira mjög erfitt vegna öryggis-ástandsins.

UNIFIL hefur einnig greitt fyrir því að mannúðarstarfsmenn hafi aðgang að íbúum svæðisins og veitir þeim vernd þegar líbanska stjórnin er ekki í stakk búin til þess.

Friðargæsluliðar heilsa að hermannasið
Friðargæsluliðar heilsa að hermannasið. Mynd: UN Photo/Eskinder Debebe.

Fjöldi UNIFIL-liða

Nærri ellefu þúsund manns starfa nú í UNIFIL. Um tíu þúsund teljast til herliðs, en einnig eru 550 staðarráðnir starfsmenn og 250 alþjóðlegir óbreyttir borgarar.

Herliðið kemur frá um 50 mismunandi ríkjum. Þessa stundina eru Indónesar fjölmennastir með rúmlega tólf hundruð hermenn. Finnar eru 167 talsins en þeir eru nú einu Norðurlandabúarnir í UNIFIL, en áður voru Danir, Norðmenn og Svíar fjölmennir.

Fjárveitingar til UNIFIL nema um hálfum milljarði dollara árlega.

Sjá nánar um UNIFIL hér.