Anna Jóhannsdóttir sendiherra hefur tekið við stöðu fastafulltrúa Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum. Hún tekur við af Jörundi Valtýssyni, sendiherra, sem verið hefur fastafulltrúi síðastliðin fjögur ár.
Anna afhenti António Guterres aðalframkvæmdastjóra trúnaðarbréf sitt 9.september.
Anna hefur gegnt fjölmmörgum trúnaðarstörfum og var nú síðast staðgengill ráðuneytisstjóra í utanríkisráðuneytinu. Auk þess má nefna að hún var fastafulltrúi Íslands hjá NATO 2013-2019 og ráðgjafi forsætisráðherra í utanríkismálum 2010-2013.
Anna Jóhannsdóttir er lögfræðingur að mennt frá Háskóla Íslands með framhaldsmenntun í evrópskum og alþjóðlegum efnahagsrétti frá Edinborgarháskóla og opinberri stjórnýslu frá Háskóla Íslands.
Annasamt er þessa stundina hjá Sameinuðu þjóðunum í New York. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra ávarpaði Leiðtogafund um framtíðina í gær og hitti Guterres aðalframkvæmdastjóra að máli. Þá hefjast almennar árlegar umræður þjóðarleiðoga á morgun, 24.september. Utanríkisráðherra mun flytja ávarp sitt laugardaginn 28.september. Þórdís Kolbrún Gylfadóttir er 11.ræðumaður á mælendaskrá fundi Allsherjarþingsins, sem hefst klukkan sjö síðdegis. Hver ræðumaður hefur 15 mínútur til umráða, en oftar en ekki raskast röðin.