Alþjóðlegur dagur friðargæsluliða SÞ. Friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna eru táknmynd „vonar og verndar“ fyrir fólk sem stendur höllum fæti í sífellt hættulegri og óútreiknanlegum heimi, segir António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna. 29.maí er Alþjóðlegur dagur friðargæsluliða Sameinuðu þjóðanna.
Friðargæslusveitirnar eru oft kenndar við bláu hjálmana sem friðargæsluliðar bera við skyldustörf. Á síðata ári féllu 102 í þjónustu samtakanna í þágu friðar.
87 þúsund manns, karlar og konur, frá 125 ríkjum þjóna í friðargæslusveitum Sameinuðu þjóðanna. Tólf friðargæsluverkefni eru nú starfrækt í heiminum. Tilgangur þeirra er að tryggja öryggi, stöðugleika og koma á réttarríki.
„Þeir eru hjartsláttur þeirrar viðleitni Sameinuðu þjóðanna að koma á friði,“ segir Guterres í ávarpi á Aþjóðlegum degi friðargæsluliða.
Jafnréttisbarátta
„Friðargæsla felst í því að fylkja liði fólks úr ýmsum heimshornum. Með þeim hætti hefur friðargæslan orðið jákvætt tákn um fjölþjóðlegt samstarf í verki,“ segir Guterres.
Aðalframkvæmdastjórinn afthenti Cecillia Erzuah höfuðsmanni frá Gana Verðlaun Sameinuðu þjóðanna fyrir starf í þágu jafnréttis kynjanna í athöfn í tengslum við alþjóðlega daginn.
Erzuah höfuðsmaður sagði verðlaunin „undirstrika óþreytandi starf“ allra í herflokki hennar í þágu þessa málefnis.
Á Alþjóðlegum degi friðargæsluliða 29.maí eru allir þeir, sem taka þátt eða hafa tekið þátt, í friðargæslu Sameinuðu þjóðanna heiðraðir. Frá 1948 hafa rúmlega tvær milljónir karla og kvenna, jafnt hermenn sem óbreyttir borgarar, starfað sem friðargæsluliðar.