Ávarp Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna á alþjóðlegum degi til varnar Ósonlaginu, 16. september 2008
Markaðsórói, efnahagsleg niðursveifla og krepputal hafa yfirleitt boðað ótíðindi fyrir umhverfið. Þegar gefur á bátinn er það yfirleitt talinn munaður að standa vörð um framtíð jarðarinnar og slíkt talið Þrándur í götu efnahagslegs viðsnúnings og þróunar. Dagurinn í dag er helgaður baráttunni til varnar Ósonlaginu. Sú merka barátta sýnir raunar og sannar að staðhæfingarnar af þessu tagi eiga ekki við rök að styðjast.
Skeleggar fjölþjóðlegar aðgerðir gegn umhverfisvá og ógnunum geta verið félagslega- heilsufarslega- og efnahagslega ábatasamar.
Ég vona að ríkisstjórnir gaumgæfi þennan árangur og sannfærist um að leggja til atlögu við umhverfisvá – ekki aðeins á uppgangstimum. Þegar gripið er til slíkra aðgerða ætti einnig að hafa í huga að beita sameiginlegum slagkrafti hinna ýmsu fjölþóðlegu sáttmála á sviði umhverfismála.
Á næsta ári munu ríkisstjórnir hittast á mikilvægum fundi um Rammasáttmála Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar í Kaupmannahöfn. Markmið okkar er að komast að nýju tímamótasamkomulagi sem feli í sér vegvísi fyrir heiminn til að stöðva aukningu gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu. Slíkt samkomulag verður að fela í sér fjármögnun til að berskjölduð ríki geti aðlagast loftslagsbreytingum. Þess konar samningur myndi ekki aðeins marka tímamót í að mæta einni helstu ógn okkar tíma, heldur einnig stuðla að því að minnka loftmengun, draga úr ágangi á skóglendi, stöðva fækkun tegunda og efla fjölbreytileika lífríkisins, svo eitthvað sé nefnt.
Eftir margra áratuga útblástur skaðlegra efna, kann það að taka fimmtíu ár til viðbótar fyrir Ósonlagið að ná sér að fullu.
Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna