Alþjóðadómstóllinn í Haag. Gasasvæðið. Þjóðarmorð. Suður Afríka hóf málflutning í dag í máli sem ríkið hefur höfðað gegn Ísrael fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag. Suður Afríka kærði Ísrael fyrir þjóðarmorð gegn Palestínumönnum á Gasa. Ísrael hefur vísað þessu á bug.
Málflutningurinn fer fram á meðan Ísraelar halda áfram umfangsmiklum sprengjuárásum á Gasa í kjölfar árásar undir forystu Hamas-samtakanna. Hún kostaði 1200 manns í Ísrael lífið og 250 voru teknir í gíslingu.
Lögfræðiteymi Suður Afríku hélt því fram að sýna mætti fram á „aðgerðir sem fælu í sért þjóðarmorðs-mynstur,“ frá því allsherjarárásin var gerð á Gasa. Ísraelar hernámu Gasasvæðið, sem er 365 ferkílómetrar að stærð, 1967.
„Þessi manndráp fela í sér eyðileggingu á lífi Palestínumanna. Þau eru viljandi, engum er eirt, ekki einu sinni nýfæddum börnum,“ sögðu lögmenn Suður-Afríku.
Fordæmalaust ofbeldi
Ísraelar hafa með aðgerðum sínum látið 2.3 milljónir Gasabúa sæta fordæmalausum árásum úr lofti, landi og láði. Árangurinn hefur verið dauði tuga þúsunda óbreyttra borgara, eyðilegging heimila og mannvirkja, sagði suður-afríski lögfræðingurinn Adila Hassim.
Þá hefur Ísrael komið í veg fyrir að fullnægjandi mannúðaraðstoð berist til nauðstaddra og skapað hættu á hungursneyð og dauða, enda sé ókleift að koma aðstoð til skila „á meðan sprengjurnar falla.“
„Palestínumenn sæta sprengjuárásum hvert sem þeir fara,“ tjáði Hassim réttinum og bætti við að oft og tíðum væri enginn annar kostur en grafa fólk í ómerktum fjöldagröfum.
„Fólkið er drepið á heimilum sínum og þar sem það leitar skjóls, á sjúkrahúsum, í moskum, í kirkjum og þegar það leitar sér matar og drykkjar fyrir fjölskyldur sínar,“ sagði Hassim.
Málflutningur heldur áfram 12.janúar og þá er röðin komin að vörn Ísraels.
Türk mannréttindastjóri hafnar ásökunum
Þessu tengt þá hefur æðsti yfirmaður mannréttindamála hjá Sameinuðu þjóðunum varið gagnrýni sína á innrásina í Gasa. Hann vísar á bug að það felist „gyðingahatur“ í því að „benda á alvarleg brot“ á alþjóðlegum mannúðarlögum.
Í grein í ísraelska blaðinu Haaretz á miðvikudag ítrekaði Volker Türk fordæmingu sína á „hrottalegri grimmd í árás Hamas og annara vígahópa frá Gasa á Ísrael 7.október.“
Fjöldamorðin hefðu valdið „miklum og áframhaldandi áföllum“ um allt Ísraels. Á hinn bóginn hefði „Ísrael beitt yfirþyrmandi afli í hernaðaraðgerðum“ og á þeim hvíldi sá blettur „að brotin hafi verið á alþjóðalög.“