Alþjóða barnadagurinn er haldinn 20.nóvember ár hvert til að stuðla að alþjóðlegri samstöðu og vitund um málefni barna, og bæta umönnun þeirra.
„Á þessum alþjóðlega degi barna heiðrum við yngstu meðlimi fjölskyldu mannsins,” segir António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi í tilefni dagsins.
„En að sama skapi er líka ástæða til að viðurkenna þær áskoranir sem blasa við börnum í okkar sundraða og stundum ofbeldisfulla heimi.“
20.nóvember hefur sérstaka þýðingu því þann dag árið 1959 samþykkti Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna Yfirlýsingu um réttindi barnsins. Sama dag, þremur áratugum síðar, 1989, samþykkti Allsherjarþingið Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Alþjóða barnadagurinn hefur verið haldinn síðan árið 1990.
Hverju hefur sáttmálinn skilað?
Enginn annar mannréttindasáttmáli hefur verið staðfestur af jafn mörgum ríkjum í sögunni. Hann hefur verið ríkisstjórnum innblástur til að breyta lögum og stefnumiðum. Sáttmálinn hefur legið til grundvallar fjárfestingum, sem miða að því að börn njóti þeirrar heilsugæslu og næringar sem þau þurfa til að lifa og þroskast. Hann tryggir einnig börnum vernd frá ofbeldi og misnotkun. Þá hefur hann gefið fleiri börnum tækifæri á að láta rödd sína heyrast og taka þátt í samfélaginu.
Nýjar hættur, ný tækifæri
Þrátt fyrir þennan árangur hefur sáttmálanum hvorki verið að fullu hrint í framkvæmd né er hann nægilega kynntur og þekktur. Milljónir barna búa eftir sem áður við brot á réttindum sínum þegar þeim er meinað um fullnægjandi heilsugæslu, næringu, menntun og vernd gegn ofbeldi. Barnæskan fær snemmbæran endi þegar börn neyðast til að hætta í skóla, vinna hættulega vinnu, giftast, berjast í stríði eða eru lokuð inni í fangelsum fyrir fullorðna.
Hnattrænar breytingar á borð við stafræna tækni, umhverfisbreytingar, stöðug átök og þjóðflutninga hafa breytt barnæsku verulega. Í dag standa börn andspænis nýrri ógn við réttindi sín, en þau hafa einnig ný tækifæri til að njóta þeirra.
Hvað er barnasáttmálinn?
Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna, sem var samþykktur 20.nóvember 1989 gekk í gildi 2.september 1990. Á vefsíðunni www.barnasattmali.is er efni hans tekið saman á eftirfarandi hátt:
Barnasáttmálinn felur í sér alþjóðlega viðurkenningu á að börn heimsins þarfnist sérstakrar verndar umfram hina fullorðnu. Hann staðfestir að börn eru sjálfstæðir einstaklingar með fullgild réttindi óháð réttindum fullorðinna. Öllum þeim sem koma að málefnum barna ber að gera það sem í þeirra valdi stendur til að framfylgja samningnum. Hér er átt við stjórnvöld, foreldra, skóla og alla aðra sem vinna með börnum eða fyrir börn.
Í 1. – 41. gr. Barnasáttmálans er fjallað efnislega um réttindi barna. Flokka má réttindi barna í þrennt; vernd, umönnun og þátttöku.
- Vernd
Réttur allra barna til lífs og frelsi til tjáningar, skoðana- og trúar. Friðhelgi fjölskyldu- og einkalífs.
- Umönnun
Réttur allra barna til að hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu, aðgengi að menntun og tækifæri til að þroskast félagslega.