Lýðræði. Þingræði. Alþjóðlegur dagur þingræðis er haldinn 30.júní ár hvert. Dagurinn er gott tækifæri til að líta yfir farinn veg og sjá hvaða árangur hefur náðst á ýmsum sviðum. Hversu vel gengur að endurspegla alla þjóðfélagsþegna og hvernig er staða kvenna og ungs fólks?
Færa má rök fyrir því að meiri ástæða sé til að halda upp á Alþjóðlegan dag þingræðis nú en oftast áður, þegar traust á opinberum stofnunum er víða í lágmarki. Lýðræðið sjálft stendur andspænis áskorunum frá lýðskrumurum og þjóðernishreyfingum. Til þess að lýðræði þrífist er þörf á öflugum, gegnsæjum og ábyrgum þingum þar sem fulltrúar sem flestra hópa eiga sæti.
Af hverju er þátttaka ungs fólks mikilvæg?
Ungt fólk þarf að lifa lengi með þeim pólitísku ákvörðunum sem teknar eru hverju sinni og því er sanngjarnt að það sé haft með í ráðum í ákvarðanatöku. Samt sem áður ber ungt fólk víða skarðan hlut frá borði og er hlutfallslega fámennt á þjóðþingum. Helmingur heimsbyggðarinnar er undir þrítugu. Hins vegar eru aðeins 2.6% þingmanna í heiminum á þessum aldri.
Alþjóða þingmannasambandið (The Inter-Parliamentary Union (IPU)) vinnur ötullega að því að snúa við þessari þróun og hefur lagt til úrræði til að ná árangri. Á meðal tillagna IPU eru að koma upp kvótum fyrir ungt fólk, að samræma kjörgengis- og kosningaaldur, og styðja við bakið á ungum frambjóðendum til pólitískra embætta.
Norræna undantekningin
Ungt fólk á Norðurlöndum á sér tiltölulega marga fulltrúa á þjóðþingum sínum. Noregur, Svíþjóð, Ísland og Danmörk eru öll á top tuttugu lista yfir yngstu þing heims, miðað við hlutfall þingheims undir þrítugu.
Alþingi Íslendinga er níunda yngsta þing heims en 7.9% þingmanna er 30 ára eða yngri. Gunnhildur F. Hallgrímsdóttir er yngsti þingmaður Íslandssögunnar en hún settist á þing í janúar 2022, sem varamaður Björns Leví Gunnarssonar.
Á norska Stórþinginu er hæst hlutfall þingmanna undir þrítugu eða 13.6%, samkvæmt upplýsingum Alþjóða þingmannasambandsins. Ekki nóg með það heldur hefur ungt fólk oft komist til áhrifa í ríkisstjórn. Sem dæmi má nefna Emilie Enger Mehl, sem varð yngsti dómsmálaráðherra Noregs þegar hún tók við embætti 2021.
Ekki er þó sopið kálið þótt í ausuna sé komið. Þótt Noregur standi sig almennt vel hvað tjáningarfrelsi varðar, virðist ungt fólk óttast að láta skoðanir sínar í ljós, að mati norsku tjáningarfrelsisnefndarinnar. Þá er unga fólkið berskjaldaðra en hinir eldri fyrir áreitni. Unga fólkið gæti einnig óttast að vera ekki tekið alvarlega að sögn nefndarinnar.
Sænska þingið, Riksdagen, er 17.yngsta þing heims en 6.6% þingheims er undir þrítugu. Svíar geta státað sig af yngsta þingmanni sögunnar, Anton Abele, sem kosinn var á þing átján ára að aldri 2010. Einnig er dæmi um kornunga ráðherra, svo sem Romina Pourmokhtari, sem varð yngsti ráðherra sænskrar stjórnmálasögu þegar hún varð loftlags- og umhverfisráðherra tuttugu og sex ára gömul 2022.
Danska Folketinget er í ellefta sæti æskulýðslista þjóðþinga en 7.8% eru undir þrítugu. Yngsti þingmaðurinn er Helena Artmann Andresen, sem var tuttugu og eins árs er hún var kosin á þingi í nóvember 2022.
Finnska þingið er 55.yngsta þing heims, en aðeins 3.5% þingamanna eru ungir samkvæmt þessari skilgreiningu. Þótt finnska þingið, sé skipað eldri þingmönnum en önnur norræn þjóðþing, er hlutfall ungs fólks þó hærra en heimsmeðaltalið sem er aðeins 2.8%. Og ástæðulaust er að gleyma að Sanna Marin vakti heimsathygli þegar hún varð yngsti forsætisráðherra heims 34 ára gömul 2019.