Fjöldi þeirra sem hafa einkenni kvíða og þunglyndis hefur þrefaldast í Noregi. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn Oslóarháskóla. Þessar tölur frá Noregi eru mjög í samræmi við niðurstöður stefnumarkandi skýrslu Sameinuðu þjóðanna sem kynnt var í gær.
WHO, Alþjóða heilbrigðismálastofnunin segir að fjölmörg ríki innan vébanda hennar hafi skýrt frá fjölgun þeirra sem hafa kvíða- eða þunglyndiseinkenni.
COVID-19 faraldurinn hefur sýnt fram á brýna nauðsyn þess að auka fjárfestingar í geðheilbrigðisgeiranum. Annars er talin hætta á gríðarlegri aukingu geðsjúkdóma á næstu mánuðum.
„Það er nú þegar ástæða til að hafa verulegar áhyggjur af áhrifum faraldursins á geðheilsu fólks,“ segir Dr Tedros Adhanom Ghebreyesus, forstjóri WHO. „Félagsleg einangrun, ótti við smit og andlát ættingja bætist við það uppnám sem tekju- og atvinnumissir veldur.“
Sjálfsvígum fjölgar
Í Noregi hefur fjöldi símtala til neyðarlínu kirkjunnar (Kirkens SOS) tvöfaldast eftir að yfirvöld gripu til harkalegra aðgerða, að því er fram kom í norska ríkisútvarpinu NRK.
Sænsk yfirvöld búa sig undir umtalsverða aukninga geðsjúkdóma í kjölfar COVID-19. 16 þúsund manns hringdu í neyðarlínu vegna sjálfsvíga í mars fyrir ári en 25 þúsund á þessu ári.
„Við óttumst að hættan á sjálfsvígum fari mjög vaxandi, sérstaklega á meðal karlmanna. Þetta er reynsla okkar af fjármálakreppunni og er mjög alvarlegt mál. Það er brýnt að við getum stöðvað efnahagskreppuna innan samfélagsins. Hún ætti ekki að koma harðast niður á þeim hópum sem berskjaldaðastir eru,“ segir Cecilia Magnusson verkefnastjóri hjá farsjúkdóma- og lýðheilsuyfirvöldum í Stokkhólmi í viðtali við Dagens Nyheter.
Áhættuhópar
Einstakir hópar eru sérstaklega í hættu af völdum andlegs álags af völdum COVID-19. Heilbrigðisstarfsmenn sem eru fremst í víglínunnni. Þeir eru í sérstakri hættu en þeir þurfa að glíma við mikið vinnuálag, taka ákvarðanir um líf og dauða og óttast smit á sama tíma.
Börn og unglingar eru í áhættuhópi. En það eru ekki síst konur sem eiga undir högg að sækja. Þær þurfa margar hverjar að reyna að samræma heimanám, fjarvinnu, heimilisstörf og umönnun aldraðra. Fólk sem þegar glímir við geðsjúkdóma er svo sérstaklega berskjaldað í kreppunni.
Þeir sem sýkjast af COVID-19 þurfa ekki aðeins að glíma við að ná líkamlegri heilsu. Í sænskri rannsókn á sjúklingum sem hafa þurft að glíma við erfiðustu öndunarfærasúkdóma sem fylgja veirusýkingunni, hafa 43% glímt við áfallastreitu og í eftirfylgni hafa 24% enn verið að glíma við hana.
Geiðheilbrigðisstarfsmenn hafa einnig haft miklar áhyggjur af áfengisneyslu. Í Kanada hafa 20% 15-49 ára aukið áfengisneyslu sína frá því faraldurinn reið yfir.
Geðheibrigðisstarf raskast
Sjálfshjálparhópar, til dæmis hópar alkóhólista og fíkla hafa ekki getað hittst í mörgum ríkjum svo mánuðum skiptir. Fjöldi fólks sem þarf á geðheilbrigðis- eða sálfræðilegum stuðningi að halda hefur aukist. Hins vegar hefur ekki verið hægt að hafa heilbrigðisstofnanir á þessu sviði opnar.
Í Svíþjóð hefur fjölda þeirra sem leita til geðlækna á stofum þeirra fækkað úr fimm þusund í þrjú þúsund en fjölda þeirra sem eiga fjarfundi við þá fjölgað úr fimm hundruð í þrjú þúsund í Stokkhólmi.
„Eftir áratuga vanrækslu og fjársvelti geðheilbrigðisþjónustunnar, verða fjölskyldur og samfélög fyrir skakkaföllum af völdum COVID-19 með auknu andlegu áfalli,“ segir António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í myndbands-ávarpi.
„Jafnvel eftir að tekist hefur að koma böndum á faraldurinn, mun fólk og heilu samfélögin þurfa að glíma við sorg, kvíða og þunglyndi.. Geðheilbrigðisþjónustan er þýðingarmikill hluti viðbragða ríkisstjórna við COVID-19. Það verður að auka þessa þjónustu og fjármagna að fullu.“