Skattamál. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt tímamótaályktun um að stefna beri að alþjóðlegum sáttmála um skattamál. Afríkuríki báru fram tillöguna sem var samþykkt með 125 atkvæðum. 48 ríki, þar á meðal Evrópusambandsríkin og Bandaríkin voru á móti. Ísland og Noregur sátu hins vegar hjá.
Markmiðið með ályktuninni um skattamál er að berjast gegn skatta-undanskotum og fjármagnsflótta. Andstæðingar samþykktarinnar báru meðal annars fyrir sig að þessum málum væri sinnt af Efnahagsamvinnu- og þróunarstofnun Evrópu (OECD). Ef sáttmáli verður að veruleika mun það fela í sér að valdsvið færist frá OECD til Sameinuðu þjóðanna. Aðildarríki OECD eru 38 auðug ríki en í Sameinuðu þjóðunum eru öll ríki veraldar. Því er haldið fram að með þessu sé komið í veg fyrir að auðug ríki í norðri setji reglur án aðkomu fátækari ríkja í suðri.
Fjölþjóðafyrirtæki borgi skatta í héraði
Óljóst er hvað myndi felast í nýjum skattasáttmála, en metnaðarfull markmið eru sett fram í samþykkt Allsherjarþingsins. Sérstaklega ber að nefna það meginmarkmið að allir skatggreiðendur, ekki síst fjölþjóðafyrirtæki, borgi þeim ríkjum skatta þar sem efnahagsleg starfsemi fer fram. Með þessu myndu skatttekjur fátækari ríkja aukast sem mætti nota til velferðarmála, þróunar og loftslagsfjármögnunar.