Allsherjarþingið fordæmir atkvæðagreiðslur og innlimun á svæðum í Úkraínu

Úkraína
Sergiy Kyslytsya fastafulltrúi Úkraínu ávarpar 11.sérstaka fund Allsherjarþingsins um Úkraínu. UN Photo/Rick Bajornas

Úkraína. Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt ályktun þar sem „ólöglegar svokallaðar þjóðaratkvæðagreiðslur“ um innlimun á svæðum innan Úkraínu eru fordæmdar. Þess er krafist að Rússar skili þeim.

143 af 193 aðildarríkjum greiddu atkvæði með ályktuninnin en þrjátiu og fimm sátu hjá og fimm voru á móti.

Auk Rússlands greiddu Hvíta-Rússland, Nikaragúa, Norður-Kórea og Sýrland atkvæði á móti ályktuninni. Á meðal þeirra sem sátu hjá voru Indland og Kína og fjölmörg Afríkuríki.

Grundvallaratriði sáttmálans

Allsherjarþingið ræðir ályktunina.
Allsherjarþingið ræðir ályktunina. UN Photo/Rick Bajornas

Í ályktuninni er „komið til varnar grundvallaratriðum“ Sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Bent er á að héruðin Donetsk, Kherson, Luhansk og  Zaporizhzhia séu þessa stundina hernumin af Rússlandi í kjölfar árásar þar sem landamæri, fullveldi og sjálfstæði Úkraínu voru virt að vettugi.

Allsherjarþingið tók málið til umfjöllunar eftir að Rússar beittu neitunarvaldi til að hindra samþykkt ályktunar í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna um innlimun svæðanna.