Allir íbúar norður Gasa eru í lífshættu

Muhammad og Abdel misstu báðir útlimi þegar ráðist var á skóla á vegum UNRWA í Nuseirat.
Muhammad og Abdel misstu báðir útlimi þegar ráðist var á skóla á vegum UNRWA í Nuseirat. © 2024 UNRWA Photo sem misst hafa útlimi

Gasasvæðið. Mannúðarmál.

Æðsti yfirmaður mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum hefur varað við því að hver einn og einasti íbúi norðurhluta Gasasvæðisins sé í lífshættu. Hún hvetur til tafarlausra aðgerða til að stöðva hróplega lítilsvirðingu,” ísraelskra hersveita við grundvallar mannúð.”

„Það má ekki leyfa ísraelskum sveitum að halda áfram með þeim hætti, sem þær hafa gert, í umsátrinu um norðurhluta Gasasvæðisins,” segir Joyce Msuya starfandi framkvæmdastjóri mannúðarmála í yfirlýsingu. „Allir íbúar norður Gasa eru í lífshættu.“

Ungur drengur í rústum á norðurhluta Gasa
Ungur drengur í rústum á norðurhluta Gasa. Mynd: UNRWA

Ráðist hefur verið á sjúkrahús, heilbrigðisstarfsmenn handteknir og björgunarstarfsmenn hindraðir í að koma fólki til hjálpar sem er fast undir rústum, bætti hún við.  „Binda ber enda á slíka hróplega  lítilsvirðingu við grundvallar mannúð og lög um hernað þegar í stað.”

Óskaplegt mannfall og eyðilegging

António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur lýst harmi sínum yfir „óskaplega mannfalli, fjölda særðra og mikilli eyðileggingu,“ að því er sagði í yfirlýsingu talsmanns hans.

Eyðilegging eftir árás.
Eyðilegging eftir árás. Mynd: UNRWA

Frá því sókn Ísraelshers hófst fyrr í þessum mánuði hafa hundruð verið drepin að sögn heilbrigðisráðuneytis Gasa. 60 þúsund hafa flosnað upp frá heimilum sínum.

„Hlutskipti palestínskra óbreyttra borgara, sem eru fastir í norðurhluta Gasa er óþolandi,“ sagði í yfirlýsingu talsmanns Guterres.

 Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur ekki tekist að koma bráðnauðsynlegri mannúðaraðstoð, þar á meðal matvæli, lyf og skýli. Ísraelsher hefur neitað að hleypa aðstoð til nauðstaddra, með fáum undantekningum, með þeim afleiðingum að fjöldi mannslífa er í hættu.