Bandarískir háskólar. Gasasvæðið. Mannréttindastjóri Sameinuðu þjóðanna Volker Türk segist hafa áhyggjur af því hve mikilli hörku hafi verið beitt til að leysa upp mótmæli við bandaríska háskóla.
„Tjáningarfrelsi og rétturinn til að safnast saman friðsamlega eru grundvallarréttindi og sérstaklega þegar um er að ræða ágreining um mikilvæg málefni á borð við átökin á hersetnum palestínskum svæðum og Ísrael,“ segir Türk í yfirlýsingu.
Á síðustu vikum hafa þúsundir bandarískra háskólanema mótmælt stríðinu á Gasasvæðinu. Mikil mótmæli hafa einnig verið í öðrum ríkjum á undanförnum dögum. Oft hafa mótmælin verið friðsamleg og árekstralaus, en sums staðar hafa átök brotist út. Mótmæli hafa verið leyst upp með valdi og hundruð námsmanna handteknir. Mörgum hefur verið sleppt en aðir eiga málaferli yfir höfði sér og aðrir refsingu innan háskóla.
Yfirvöld gaumgæfi aðgerðir alvarlega
Türk segir að háskólayfirvöld og löggæsluyfirvöld þurfi að gaumgæfa alvarlega aðgerðir sem fela í sér að takmarka tjáningarfrelsi. Tryggja beri að aðgerðum sé stillt í hóf. Einungis megi grípa til aðgerða ef gengið sé á rétt og frelsi annara eða opinberri reglu og lýðheilsu sé ógnað.
„Ég hef áhyggjur af því að stundum hafi ekki verið gætt hófs í löggæsluaðgerðum við ýmsa háskóla.“
Türk lagði einnig áherslu á að gyðingaandúð væri óásættanleg í orði sem á borði. Að sama skapi væri andúð á Aröbum og Palestínumönnum óviðunandi.