Konur eru aðeins 30% þeirra sem stunda vísindarannsóknir í heiminum. Hlutfall kvenna sem nema raungreinar í háskólum er svipað, eða innan við þriðjungur.
Í dag 11.febrúar er alþjóðlegur dagur helgaður konum og stúlkum í vísindum. Undanfarinn áratug hefur náðst mikill árangur í menntun stúlkna í heiminum. Enn er þó ginnungagap á milli fjölda karla og kvenna í svokölluðum STEM-greinum eða í vísindum, tækni, verkfræði og stærðfræði.
Rannsóknir benda til þess að hefðir og staðalímyndir séu ljón í vegi stúlkna. Helga Bragadóttir er prófessor og forstöðumaður fræðasviðs í hjúkrunarstjórnun við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands og Landspítala. Hún segir nokkrar ástæður liggja að baki því að færri konur en karlar hafi farið í raungreinar og vísindi.
„Ein þeirra er saga kynjanna og hlutverk konunnar í barneignum og barnauppeldi,” segir Helga í viðtali við vefsíðu UNRIC. „Öll tækniþekking og í raun öll þekking felur í sér völd. Að halda þekkingu fyrir sig, þ.e. veita ekki öðrum hlutdeild í henni og eða kenna ekki öðrum að skilja og nýta þekkingu sjálfstætt, er valdaaðferð sem hefur verið beitt á konur og aðra hópa.”
Stelpudót og strákadót
Katrín Lilja Sigurðardóttir kennir efnafræði við Háskóla Íslands. Hún hefur kynnt töfra efnafræði og vísinda fyrir börnum. Nefna má bæði Sprengjugengi Háskóla Íslands og í sjónvarpinu með Ævari vísindamanni. Hún bendir á rótgrónar staðalímyndir.
„Ég trúi því að rót vandans sé sú að staðalímynd vísindamannsins er karlkyns. Byrjað er að skapa þessa staðalímynd á unga aldri,” segir hún í viðtali við vefsíðu UNRIC, „„Stelpudót“ og „strákadót“ þekkjum við öll. En sem betur fer er fólk almennt orðið nokkuð meðvitað um mikilvægi þess að vísinda- og tæknileikföng séu markaðssett fyrir bæði stúlkur og drengi.”
„Það eru sterkar vísbendingar um að uppeldisaðferðir og skilaboð til barna hafi mikil áhrif. Ef skilaboðin og kröfurnar eru að það sé kvenlegt að vera lítt að sér í vísindum og tækni og almennt minna menntaður, hefur það mikil áhrif,” segir Helga Bragadóttir.
Rannsóknir benda til að lítill hlutur kvenna í vísindum, tækni, verkfræði og stærðfræði megi rekja til afstöðu samfélagins og fjölskyldna. Drengir séu oft og tíðum hvattir meira til að læra raungreinar á unga aldri. Stúlkum sé talin trú um að þessar greinar séu ókvenlegar.
Ekki sé heldur gengið á hólm við staðalímyndir samfélagsins innan skólans.
Karlaheimur
„Svo þarf sterkar fyrirmyndir. Þar sem þetta er vítahringur eru þær ekki áberandi og kannski of fáar,” segir Helga prófessor Bragadóttir. „Það hefur verið og er enn ótrúlega lífsseigt að konur eigi ekki að hafa frumkvæði. Þær eigi að láta lítið fyrir sér fara, þær eiga ekki að sýna metnað í störfum. Og það sem þær gera er smættað og það sem þær hafa fram að færa er ekki eins mikils virði. Raungreinaheimurinn hefur verið karlaheimur. Sjálfsagt eimir enn af því að karlar “áttu konur” auk veraldlegra gæða.”
Katrín Lilja bendir á að karlkyns staðalímynd vísindamannsins geti haft áhrif á getu stúlkna í námi. „Stúlkan trúir því innst inni, og jafnvel ómeðvitað, að strákar eru sterkari en stelpur í vísindagreinum. Það getur valdið ómeðvituðum kvíða og vantrú á eigin getu. Það getur svo komið niður á námsárangri og vilja til að sækja í námið. Við þurfum hjálpa börnunum okkar að skapa kynlausa staðalímynd af vísindamanninum. Til að það takist þurfa konur að vera sýnilegri í allri vísindalegri umfjöllun.”
96% líkur á að fá ekki Nóbel
Danski vísindavefurinn www.videnskap.dk sagði frá athugun vísindamanna á Nils Bohr-stofnuninni. Þegar konur voru óvenjusigursælar við veitingu Nóbelsverðlauna 2018 könnuðu þeir fylgni fjölda Nóbela við fjölgun kvenna í æðri rannsóknarstöðum við bandaríska Háskóla. Á daginn kom að konum fjölgaði lítið við verðlaunaveitingar þrátt fyrir fjölgun þeirra í þessum eftirsóknarverðu stöðum. Á sama tíma sóttu starfsbræður þeirra með reglulegu millibili Nóbela til Stokkhólms. Svo rammt kvað að þessu að niðurstaðan var sú að 96% líkur væru á því að bestu konur vísindaheimsins fengju ekki Nóbel!
„Við þurfum öll að taka höndum saman um að drepa niður staðalímyndir. Temja okkur breytt hugarfar, orðræðu og hegðun þegar kemur að konum í vísindum. Það á hreinlega ekki að líðast að búin séu til kynjuð leikföng, fatnaður þar sem stúlkum er hreinlega sagt beint og óbeint að raungreinar og vísindi séu strákastöff,” segir Helga.
Þetta eru jafnframt skilaboð Sameinuðu þjóðanna á Alþjóðlegum degi stúlkna og kvenna í vísindum. „Til þess að takast á við áskoranir 21.aldarinnar verðum við að leysa úr læðingi alla hæfileika,“ segir António Guterres aðalframkvæmdastjóri samtakanna í ávarpi í tilefni alþjóðlega dagins. „Til þess að svo megi verða, ber að kasta fyrir róðu kynjuðum staðalímyndum. Sverjum þess eiða á þessum alþjóðadegi kvenna og stúlkna í vísindum að binda enda á kynjahallann í vísindum.“
Innri tónlistarkonan- innri vísindakonan
Það sem gerir þessa úreltu staðalímyndi enn grætilegri en ella er sú staðreynd að langt er síðan konur hösluðu sér völl með afgerandi hætti í mörgum raunvísindagreinum. Þannig er meir en öld er síðan pólsk-franska vísindakonan Marie Curie fékk Nóbelsverðlaun í tvígang fyrst í eðlisfræði 1903 og síðan í efnafræði 1911.
Og við Íslendingar höfum státað af fjölmörgum framúrskarandi vísindakonum. Nægir að nefna prófessor Margréti Guðnadóttur veirufræðing (1929-2018). Sonardóttir hennar Hildur Guðnadóttir hlaut einmitt Óskarsverðlaun fyrir kvikmyndatónlist á sunnudag. Hún skoraði í þakkarræðu sinni á „stúlkur, konur, mæður, dætur, sem finndu tónlistina ólga ininí sér að leysa hana úr læðingi.” Á sama hátt hvatti amma hennar stúlkur til að gefa sinni innri vísindakonu lausan tauminn á undan henni.