Á meðan þið voruð að horfa á annað…eftir Shashi Tharoor, aðstoðarframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna

Á dögunum þegar ég undirbjó að fylgja úr hlaði árlegum lista Sameinuðu þjóðanna yfir tíu alþjóðleg fréttamál sem ættu skilið meiri fjölmiðlaathygli, barst mér til eyrna að ákveðið hefði verið að nokkrir þættir af Bráðavaktinni yrðu teknir upp í búðum fyrir flóttamenn í Darfur héraði. Þetta eru góðar fréttir. Það er varla hægt að hugsa sér betri aðferð til þess að færa voðaverkin í Darfur heim til fólks sem lifir við allt annan raunveruleika en þann sem blasir við í Súdan. 
 
Ef ætlun framleiðendanna var að veita sjónvarpsáhorfendum innsýn í þjáningar og ofbeldisverk með það fyrir augum að þeir krefðust þess að stjórnvöld gripu inn í, þá var það göfug fyrirætlun. Og enn mikilvægari fyrir þær sakir að samanlagt fjölluðu þrjár helstu sjónvarpsfréttastofur Bandaríkjanna um þessi hræðilegu átök í innan við tíu mínútur á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2006. Okkur skilst að sjónvarpsumfjöllunin í öðrum heimshlutum hafi ekki verið mikið meiri. 
 
Í augum fjölmiðla gildir ekki einu hvar í heiminum neyðarástand brýst út og þar af leiðandi gerir heimurinn það ekki heldur. Hvað annað getur útskýrt annars vegar gríðarlegt örlæti þegar flóðaaldan reið yfir Indlandshaf um hátíðirnar 2004 og hins vegar tómlæti heimsins þegar Silkileiðarborgin Bam í Iran var lögð í rúst í jarðskjálftum ári áður?
 
Árið 2004 höfðum ég og starfsfélagar mínir þungar áhyggjur af því að mikil umfjöllun um Íraksstríðið hefði rutt öðrum brýnum fréttamálum burt af síðum blaðanna og af sjónvarpsskjánum. Fyrsta skref okkar var að taka saman lista yfir þær fréttir sem ekki væru sagðar. Þannig varð listi Sameinuðu þjóðanna yfir “Tíu fréttir sem heimurinn ætti að heyra” til. 
 
Sumir óttuðust að fjölmiðlar tækju þessum lista óstinnt upp en það var auðvitað ekki ætlun okkar að vanda um fyrir þeim. Okkur langaði að hreyfa þannig við venjulegu fólki að það sæi sig knúið til að krefjast þess af leiðtogum sínum að þeir gripu inn í til að hjálpa þeim sem hefðu sigrast á ómældum erfiðleikum, aðstoða þá sem þyrftu sárlega á sameiginlegri hjálp okkar að halda til að komast upp úr örbirgð og örvæntingu og beina kastljósinu að þeim eiga skilið athygli fyrir árangur sinn. Með þetta í huga ákváðum við að útvega blaðamönnum og ritstjórum lista yfir mál sem væru bæði fréttnæm og ættu skilið athygli, í þeirri von að þessi mál sem varða líf og dauða kæmust í kastljósið.
 
Nú tveimur árum síðar eru mörg af þessum fréttamálum enn til umfjöllunar bæði hjá fjölmiðlum og bloggurum. En jafnvel þótt listarnir okkar hafi skilað árangri, er vandamálið óleyst: langflestir fjölmiðlar einbeita sér að örfáum alþjóðlegum fréttamálum á sama tíma og öðrum jafnmikilvægum fréttamálum sem eiga fullt eins skilið athygli okkar allra, er lítið sem ekkert sinnt eða þau skoðuð útfrá mjög þröngu sjónarhorni.
 
Mörg af þeim fréttamálum sem eru á listanum 2006 sem var kynntur 15. maí eru frá stöðum sem aldrei heyrist um í morgunfréttunum. Þær eru oft um hluta af fréttum sem sagðar eru en hafa af einhverjum ástæðum fallið á milli skips og bryggju í frásögnum. 
 
Þegar kastljósi heimsins er beint að réttarhöldum yfir Charles Taylor, fyrrverandi einræðisherra Líberíu, minnum við líka á að nýkjörinn leiðtogi landsins, Ellen Johnston-Sirleaf er fyrsti kvenforseti Afríku og við segjum líka: gleymið ekki baráttu þjóðarinnar við að byggja upp varanlegan frið.
 
Og þegar fréttir eru sagðar af átökum almennings og konungsveldisins í Nepal, væri kannski ekki úr vegi að segja frá átökunum við Maoista og þann skaða sem heil kynslóð barna hefur orðið fyrir.
 
Og þegar sagt er frá átökum og ofbeldi í Kongó, væri heldur ekki úr vegi að lesendur og áhorfendur fengju líka að fræðast um fyrstu skref landsins til að halda fjölflokkakosningar. 
 
Markmið okkar er að útvega blaðamönnum tímabærar og áreiðanlegar upplýsingar um þessi mál. Og við gerum það því þessi mál þurfa athygli ykkar og stuðning. 
 
Sumir haldar því fram að blaðamenn séu aðeins sögumenn, að raunveruleikinn sé annars staðar. En góðar sögur geta breytt heiminum. Okkar hlutverk er að ögra þeim sem segja sögurnar sem skilgreina heiminn, til að nota það vald í þágu betri heims.
 
 
Shashi Tharoor, er aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á sviði samskipta.