Alþjóðlegt ár varðveislu jökla. Jöklagrafreitur. Jöklar.
Jöklar á Íslandi eru á svo hröðu undanhaldi að svo kann að fara að komandi kynslóðir velti vöngum yfir því hvers vegna eyjan var kennd við ís. Af þessum sökum var það ekki að ófyrirsynju að Ísland varð fyrir valinu til að hýsa fyrsta jöklagrafreit í heiminum. Jöklagrafreitur var kynntur til sögunnar við athöfn 17.ágúst á Seltjarnarnesi.
Vísindamenn frá Rice háskóla í Houston í Texas, Veðurstofu Íslands, Háskóla Íslands, Jöklarannsóknafélagi Íslands og Náttúruminjasafni Íslands voru viðstaddir vígsluna, sem haldin var í tilefni af komandi ári 2025 sem lýst hefur verið Alþjóðlegt ár varðveislu jökla á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Heimseftirlitsstofnun jökla og Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) taka þátt í verkefninu.
Heimslisti dáinn og deyjandi jökla
Við sama tækifæri var kynntur Heimslisti yfir 15 jökla sem ýmist eru horfnir eða í hættu (The Global Glacier Casualty list). Að mati vísindamanna hefur hlýnun jarðar haft í för með sér að þúsundir jökla hafa horfið í heiminum frá síðustu aldamótum. Búist er við að helmingur þessara jökla verði horfnir fyrir 2100.
Grafreitinn prýða 15 legsteinar sem listamaðurinn Ottó Magnússon hafði skorið út í ís.
„Við höfum aldrei þurft á jöklagrafreit að halda fyrr,“ sagði Cymene Howe frá Rice háskóla. „En nú gerum við það. Og þótt allir legsteinarnir bráðni – eins og jöklarnir sjálfir -vonum við að athöfnin og íslegsteinarnir minni á að jöklum heimsins bíða sömu örlög ef ekki er gripið til skjótra aðgerða.“
Hið horfna Ok
Legsteinunum var komið fyrir nærri sjónum á Seltjarnarnesi, þaðan sem Snæfellsjökull blasir við handan Faxaflóans. Þótt Snæfellsjökull hafi tapað helmingi rúmmáls síns frá lokum 19.aldar eru margir aðrir jöklar í heiminum – og á Íslandi – verr á sig komnir. Á meðal horfinna jökla á listanum eru Pizoljökullinn svissneski (2019), Sarennejökull hinn franski (2023), Andersonjökullinn í Bandaríkjunum (2015) og Martial Sur í Argentínu (2018).
Fimm ár eru síðan Okjökull var syrgður við athöfn sem Katrín Jakobsdóttir þáverandi forsætisráðherra og Mary Robinson fyrrverandi forseti Írlands sóttu. Hann er þó ekki á listanum.
70 af 400 horfnir
„Hann er horfinn, en hann er búinn að fá sína athygli og sinn skjöld,“ segir Hrafnhildur Hannesdóttir jöklafræðingur í viðtali við vefsíðu UNRIC. Ákveðið var að láta þar við sitja og hann yrði ekki íslenski fulltrúinn. Hætt er við að margra íslenskra jökla bíði sömu örlög og Oks.
„Það er ekki annað að sjá en að við séum á stöðugri uppleið að dæla út koltvísýringi þannig að það er ekki að sjá að við séum búin að girða okkur vel í brók.”
Ísland er þegar búið að tapa 70 af 400 jöklum sínum. Margir þeirra eru vissulega mjög smáir eins og litlu jöklarnir á Tröllaskaga. Búast má við að næsti jökull sem hverfi verði Höfsjökull „Hann er flatur og liggur í þúsund til ellefu hundruð metrum,” segir Hrafnhildur Hannesdóttir.
Eins sentimetra hækkun yfirborðs sjávar
Ef allir íslensku jöklarnir myndu hverfa myndi yfirborð sjávar hækka um sem samsvarar tæplega einum sentimetra. Þetta er örlítið minn en ef allir jöklar Himalajafjalla myndu bráðna að sögn Þorsteins Þorsteinssonar jöklafræðings. Himalajajöklarnir þekja um 40 þúsund ferkílómetra en stærsti jökull Íslands og Evrópu, Vatnajökull, um 7700 ferkílómetra.
Af ýmsum ástæðum gæti „sá stóri” þó verið nokkru lífseigari en aðrir íslenskir jöklar. „Vatnajökull er flóknara dæmi,” segir Þorsteinn Þorsteinsson í viðtali við vefsíðu UNRIC. „Hann er svo stór og mikill um sig og býr til sitt eigið veður. Hann liggur hátt og safnar þess vegna á sig ákomu á veturna. Ef hann hyrfi, myndi hann ekki myndast aftur í núverandi loftslagi, það er það hlýtt. Það er talið að hann haldi þetta lengur út, kannski fram á 24.öld.
Langjökull næstur hinna stóru
Öðru máli gegnir um næststærstu jöklana, Langjökul og Hofsjökul.
„Af stóru jöklunum er Langjökull veikastur fyrir, því hann liggur lægra í landinu en Hofsjökull og stórir hlutar Vatnajökuls,” segir Þorsteinn. „Það liggja fyrir reiknaðar niðurstöður um að það verði aðeins 10-20% eftir af Langjökli eftir um 2100. Hofsjökull heldur sínu betur, hann liggur alveg 400 metrum hærra þar sem kaldara er og meira snjóar. Þannig að hann gæti hafa misst 40% af sínu rúmmáli árið 2100 af því sem var árið 2000.“
Vatnsturnar Asíu
Af skiljanlegum ástæðum vekur bráðnun jökla í Himalajafjöllum meiri athygli en minnkun íslensku jöklana. Jöklum prýddir tindarnir á Hindu-Kush og Himalajasvæðinu hafa verið nefndir „Vatnsturnar Asíu.”
Þar eiga upptök sín sum af þýðingarmestu stórfljótum jarðar á borð við Indus, Ganges, Brahmaputra og Jangtse á tiltölulega afmörkuðu svæði. Þau eru „líflína hundruð milljóna ef ekki milljarða manna,” að sögn Þorsteins. Jöklarnir í Himalaja hafa tapað 40% af rúmmáli sínu frá lokum 19.aldar. Talið er að þeir muni hafa rýrnað um 75% við lok þessarar aldar.
„En bráðnun þeirra þýðir þó ekki að 2-3 milljarðar manna í Kína og Indlandi deyji úr þorsta. Uppspretta Gangesfljóts er til dæmis í litlum jökli, Gangotri. Það mun halda áfram að rigna og snjóa, auk þess sem grunnvatn og Monsún-rigningarnar, mun halda áfram að vökva þessar ár,” segir Þorsteinn.
Hrafnhildur starfsystir hans Hannesdóttir bendir á að bráðnunin valdi líka öðrum skakkaföllum svo sem flóðum og aurskriðum og nú þegar séu þau bæði tíð og mannskæð. „Það þarf að skoða stóru myndina en ekki einblína á eitthvað eitt. Svo má ekki gleyma að hækkandi sjávarstaða mun hafa áhrif á enn fleira fólk.”
Hvíti liturinn í fánanum
Loks má svo nefna menningarlegu hliðina. „Þeir eru snar þáttur í líf okkar,” bendir Dominic Boyer frá Rice háskóla á. „Þeir tilheyra þeim tíma sem eigum saman en ekki abstrakt framtíðartjóni. Þeir eru tap sem við finnum og munum finna með öllum skilningarvitum okkar.”
Ísinn er líka hluti af íslenskri þjóðarvitund eins og sjá má af fánalitunum. Rauði liturinn stendur fyrir eldinn, hinn blái fyrir himininn og hafið og hinn hvíti fyrir jöklana.
Snæfell í stað jökuls
Það er þó huggun harmi gegn að hvíti liturinn hverfur ekki með jöklunum. Hinn mikli Snæfellsjökull mun sennilega ekki teljast til jökla lengi enn en snækringdur verður hann trúlega um fyrirsjáanlega framtíð, þótt svo kunni að fara að hann verði kallaður Snæfell á ný.
Þorstein Þorsteinsson bendir á að „jökulísinn er þarna undir og er tiltölulega þunnur. Hann er hins vegar gráleitur og er ekkert sérstaklega fallegur. Mér þykir gott til þess að hugsa að þegar hann verður farinn mun ekki hætta að snjóa. Hlutfall snævar og regns mun breytast en afkomendur okkar munu áfram geta horft á snævi kringdan snæfellsjökull.langt fram á næstu öld, sem betur fer.”
Alþjóðlegt ár og alþjóðlegur dagur jökla
Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna hefur samþykkt að árið 2025 verði Alþjóðlegt ár varðveislu jökla. Þá verði 21.mars ár hvers Alþjóðlegur dagur jökla. UNESCO, Mennta-, vísinda og menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna og Alþjóða veðurfræðistofnuninni (WMO) var falin framkvændin.