13. janúar 2017. Fjöldi barna sem ein síns liðs til Ítalíu sjóleiðina á síðasta ári meir en tvöfaldaðist frá fyrra ári. Að sögn UNICEF eru 90% barna í hópi farand- og flóttafólks sem leitar sjóleiðina til Ítalíu yfir Miðjarðarhafið, fylgdarlaus eða hafa orðið viðskila við fjölskyldur sínar.
UNIEF segir brýnt að grípa til aðgerða og sérstakra úrræða sé þörf til að vernda börnin fyrir mansali, illri meðferð og misnotkun.
„Þessar tölur benda til uggvænlegrar þróunar, því sífellt fleiri berskjölduð börn hætta lífi sínu til þess að komast til Evópu,“ segir Lucio Melandri, hjá UNICEF.
„Núverandi kerfi er ekki fullnægjandi vörn, því oft og tíðum eru þau fylgdarlaus og glíma ein við óþekktar aðstæður,“ sagði hann. Hann hvatti til þess að Evrópuríki gripu til samhæfðra aðgerða og minnti á að flest barnanna ætluðu sér að halda áfram för til annara ríkja.
Árið 2016 komu 25.800 fylgdarlaus börn til Ítalíu en voru 12.360 2015. Þetta er hvorki meira né minna en 91% þeirra 28.200 barna sem komu til Ítalíu sjóleiðina í hópi farand- og flóttafólks.
Meirihluti þeirra er frá Erítreu, Egyptalandi, Gambíu og Nígeríu.
Til samanburðar má nefna að aðeins 17% barna í sömu sporum sem komu til Grikklands sjóleiðina voru fylgdarlaus eða höfðu verið aðskilin frá fjölskyldum sínum.
„Þessi mikli fjöldi fylgdarlausra barna yfir mitt Miðjarðarhafið er fordæmalaus“, segir Melandri. „Það er augljóst að við stöndum frammi fyrir mjög alverlegu og vaxandi vandamáli.“
Að sögn UNICEF eru flest barnanna drengir á aldrinum 15 til 17 ára, en yngri börn og stúlkur eru einnig í þessum hóp. Stúlkurnar standa sérstaklega höllum fæti og eiga yfir höfði sér kynferðislega þvingun og misnotkun, þar á meðal að vera seldar í vændi.
Margar stúlknanna sem yfirheyrðar voru við komuna til Palermo á Sikiley sögðust hafa verið þvingaðar til að stunda vændi í Líbýu til að greiða fyrir sjóferðina til Ítalíu. Flestir drengjanna voru neyddir til að stunda líkamlega vinnu.
Mynd: UNICEF/Ashley Gilbertson VII