8 ráð um hvernig á að tala við börn um stríð og frið

UNICEF Börn og stríð

Börn. Foreldrar. Fréttir. Stríð. Þegar styrjaldarátök eru í fréttunum eins og þessa dagana, frá Úkraínu til Gasa, geta tilfinningar á borð við ótta, leiða, reiði og kvíða gert vart við sig. Börn leita ætíð skjóls og öryggis hjá foreldrum sínum og í enn ríkari mæli á átakatímum.

Hér eru nokkur ráð um hvernig hægt er að nálgast barnið eða börnin ykkar og veita þeim stuðning og huggun.

UNICEF Börn og stríð

1.        Grennslist fyrir um hvað þau vita og hvernig þeim líður.

Veljið tíma og stað til að fitja upp á samtali á eðlilegan hátt, til dæmis við matarborðið. Ekki ræða þetta mál þó rétt fyrir háttatíma.

Gott er að byrja á því að spyrja hvað barnið veit mikið og hvernig því líður. Sum börn vita kannski lítið og hafa ekki áhuga á að tala um það, en önnur eru kannski kvíðin í þögn. Þegar yngri börn eiga í hlut kunna teikningar, sögur og önnur virkni að koma til greina til að opna á samtal.

Börn geta komist að því sem er í fréttum á ýmsan hátt. Því er mikilvægt að komast að raun um hvað þau heyra og sjá. Þetta er tækifæri til að róa þau og hugga, en janframt til að leiðrétta huganlega rangar upplýsingar, sem þau hafa fengið á netinu, í skólanum eða hjá vinunum.

Barnið kann að túlka stöðugt streymi óróavekjandi mynda og fyrirsagna þannig að allt sé að fara til fjandans í lífi þeirra. Yngri börn greina stundum ekki á milli mynda á skjánum og þeirra eigin raunveruleika. Þau kunna að telja sig í bráðri hættu, jafnvel þótt átökin séu víðsfjarri. Eldri börn hafa jafnvel séð skelfilega hluti á samfélagsmiðlum og óttast stigmögnun.

Það er þýðingarmikið að gera ekki lítið úr eða vísa slíkum áhyggjum á bug. Ef þau spyrja spurninga, sem virðast fjarstæðukenndar, á borð við „Munum við öll deyja?“, ber að fullvissa þau um að ekkert slíkt muni gerast. Einnig er rétt að komast til botns í því hvaðan vitneskja þeirra kemur og hvers vegna þau óttast að allt fari á versta veg. Ef þið skiljið hvaðan áhyggjurnar koma, er líklegra að þið getið huggað barnið.

Viðurkennið tilfinningar þeirra og segið þeim að slíkar tilfinningar – hverjar sem þær eru- séu eðlilegar. Hlustið á börnin og veitið þeim fulla athygli og minnið á að þau geti hvenær sem er talað við ykkur eða annað traustvekjandi fullorðið fólk.

UNICEF Börn og stríð

2.        Haldið ró ykkar og miðið við aldur

Börn hafa rétt á að vita hvað er að gerast í heiminum. Fullorðnir bera hins vegar ábyrgð á því að forða börnum frá áhyggjum. Þú þekkir barnið þitt best. Notið viðeigandi orð miðað við aldur barnsins, fylgist með viðbrögðum þess og verið vakandi fyrir kvíðastiginu.

Það er eðlilegt að vera dapur og áhyggjufull(ur). En hafið hugfast að börnin soga í sig tilfinningar fullorðinna og því ber að varast að varpa óttanum yfir á börnin. Talið af rósemi við börnin og verið meðvituð um líkamstjáningu, svo sem svipbrigði.

Reynið að sannfæra börnin eins og þið best getið um að þau séu örugg fyrir hvers kyns hættu. Minnið þau á að það sé fullt af fólki um allan heim, sem leggi hart að sér til að stöðva átök og koma á friði.

Hafið líka hugfast að það er í lagi þótt þið hafið ekki svör á reiðum höndum við öllum spurningum. Þið getið sagt að þið þurfið að athuga málið og jafnvel virkja eldri börnin í að finna svör í sameiningu. Notið vandaðar og viðurkenndar heimildir. Útskýrið að sumt af því sem finna má á netinu sé ekki nákvæmt og mikilvægt sé að leita öruggra upplýsinga.

UNICEF Börn og stríð

3.         Eflið samúð, ekki andúð

Fordómar og mismunun eru oft fylgifiskar átaka, hvort heldur gegn þjóðum eða einstaklingum. Forðist að nota orðalag á borð við „vont fólk“, eða „illir“. Notið frekar tækifærið til að efla samúð til dæmis í garð fólks á flótta frá heimilum sínum.

Þótt átökin séu í fjarlægu ríki, getur það verið olía á eld mismununar heima fyrir. Gangið úr skugga um að börnin verði ekki vitni að eða taki þátt í einelti. Ef þau verða fyrir slíku, hvetjið þau til að segja ykkur, eða öðrum fullorðnum, sem þau treysta, frá.

Minnið börnin á að allir eiga skilið að búa við öryggi í skólanum og samfélaginu. Einelti og mismunun eru alltaf röng og okkur ber öllum að gera okkar besta til að efla góðvild og styðja hvert annað.

UNICEF Börn og stríð

4.         Beinið sjónum að þeim sem veita aðstoð

Það er mikilvægt fyrir börnin að vita af því að fólk hjálpast að með góðvild og hugrekki að leiðarljósi. Finnið jákvæðar frásagnir um björgunarstarf eða ungt fólk, sem hvetur til friðar.

Kannið hljómgrunninn fyrir því hvort barnið vilji vera virkt og láta gott af sér leiða. Kannski með því að teikna vegggmynd, eða yrkja kvæði um frið; taka þátt í fjársöfnun eða skrifa undir bænaskjal. Oft er mikil huggun í því að leggja sín lóð á vogarkálarnar, sama hversu lítið það er.

UNICEF Börn og stríð

5.         Ljúkið samtalinu á góðum nótum

Mikilvægt er að ljúka samtalinu með því hætti að barnið sé ekki skilið eftir áhyggjufullt. Reynið að leggja mat á áhyggjur þess með því að fylgjast með líkamstjáningu, raddblæ og andardrætti.

Minnið þau á að þau skipta þig máli og að þú hlustir á þau og styðjir hvenær sem þau eru kvíðin.

UNICEF Börn og stríð

6.         Haldið áfram að fylgjast með

Ekkert lát er á fréttum af átökum og því er ástæða til að kanna ástand barnanna annað slagið. Hvernig líður þeim? Eru einhverjar spurningar sem vakna og þau vilja ræða við ykkur um ?

Ef barnið virðist kvíðið yfir því sem er að gerast, fylgist þá með breytingum á borð við maga- eða höfuðverk, martröðum eða svefnerfiðleikum.

Börn bregðast misjafnlega við óþægilegum atburðum og sum áhyggju-einkenni eru ef til vill ekki augljós. Yngri börn eru kannski óvenjumikið utan í ykkur, en táningar kunna að vera afar daprir eða reiðir. Oft vara slík viðbrögð ekki lengi og eru eðlileg viðbrögð við atburðum sem mikið álag fylgir. Ef þau eru viðvarandi er ástæða til að leita til sérfræðinga eftir aðstoð.

Til að minnka álag kann að vera þjóðráð að gera maga-öndunaræfingar saman:

  • Andið fimm sinnum djúpt; fimm sekúndur inn um nefið og fimm út um munninn.
  • Útskýrið að þegar barnið andar inn fyllist maginn af lofti eins og blaðra og þegar það andar út leki loftið hægt út úr henni.

Verið tilbúin að tala við barnið ef það vill ræða málið. Ef það er rétt fyrir háttatímann, er best að ljúka því á jákvæðum nótum, til dæmis með því að lesa uppáhaldssögu til að barnið sofi vel.

UNICEF Börn og stríð

7.         Takmarkið fréttaflóðið

Hafið hugfast hve mikið af fréttum eru í gangi í viðurvist barns, þegar mikið er um sláandi fyrirsagnir og átakanlegar myndir. Hugleiðið hvort slökkva ber á fréttunum í návist ungra barna. Þegar um eldri börn er að ræða er það valkostur að nota tækifærið til að ræða fréttaneyslu þeirra og hvaða fréttum er treystandi. Einnig ber að hugleiða hvernig þið talið við aðra fullorðna um átökin í viðurvist barna.

Reynið að fitja upp á skapandi afþreyingu eins og leika saman leik eða fara saman í göngutúr.

UNICEF Börn og stríð

8.        Sinnið sjálfum ykkur

Það skiptir máli fyrir börnin, hvernig þið bregðist við fréttum. Börn eru næm fyrir viðbrögðum ykkar og því er það þeim til góðs ef þið haldið ró ykkar og sjálfsstjórn.

Ef þið eruð kvíðin eða æst, takið ykkur tíma fyrir ykkur sjálf og leitið til fjölskyldunnar, vina og fólks sem þið treystið. Hugleiðið hvernig þið neytið frétta. Reynið að ákveða tíma á deginum til að kanna hvað er í fréttum, frekar en að vera sítengd. Og gerið ykkar besta til að finna tíma til róandi og endurnýjandi athafna.

Heimild: UNICEF.

Sjá ýmsar krækjur um einstaka þætti  (á ensku)

Að draga úr álagi og efla vellíðan þína og barnsins, sjá hér.

Hvernig á að greina streitu hjá barni? sjá hér.

Friðarljóð eftir börn úr öllum heimshornum, sjá hér.

Minnt skal á

NEYÐARSÖFNUN UNICEF FYRIR BÖRN Á GAZA, sjá hér.