
Sanna Marin forsætisráðherra Finnlands varar við því að áunnin réttindi kvenna eigi undir högg að sækja í heiminum. Marin var aðalræðumaður þegar Sameinuðu þjóðirnar fögnuðu Alþjóðlega kvennadeginum 8.mars í höfuðstöðvum samtakanna í New York á föstudag.
„Þegar ég lít yfir sviðið í heiminum í dag blasir ekki sérstaklega björt mynd við mér,“ sagði finnski forsætisráðherrann. „Sótt er að jafnrétti kynjanna og réttindum kvenna. Sérstaklega í kynferðis- og frjósemisheilbrigðisréttindum. Meira að segja stuðningur við mikilvægt málefni á borð við konur, frið og öryggi fer dvínandi. Það var sorglegt að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna gæti ekki komið sér saman um stuðning við fórnarlömb kynferðislegs og kynbundins ofbeldis í apríl síðastliðnum.“
Marin forsætisráðherra benti á að hún væri á meðal aðeins tuttugu og einnar konu sem sæti í oddviti ríkisstjórrna í þeim 193 ríkjum sem ættu aðild að Sameinuðu þjóðunum.
Í ræðu sinni beindi hún sjónum að nútímatækni og áhrifum á jafnrétti. Hún sagði afar þýðingarmikið að réttindi kvenna og stúlkna væru í fyrirrúmi þegar tækni, nýsköpun og stafræn umbreyting væri annars vegar.
Gervigreind
„Nýjar vörur og þjónusta sem byggja á gervigreind ýta undir undirliggjandi kynjafordóma. Ég vil breyta þessu. Eina leiðin til þess er að fjölga konum í hátækni. Jafnframt að fjölga konum í þeim stöðum þar sem þær geta haft áhrif á regluverk þessa geira.“

Í aðdraganda Alþjóðlega kvennadagsins kynnti UN Women, Jafnréttisstofnun Sameinuðu þjóðanna skýrsluna „Yfirlit yfir réttindi kvenna 25 árum eftir Beijing ( “Women´s Rights in Review 25 years after Beijing”) þar sem farið er ítarlega yfir framkvæmd aðgerðaáætlunarinnar sem samþykkt var í Beijing, en það er umfangsmesta áætlun í jafnréttismálum sem um getur.
Þar er komist að þeirri niðurstöðu að framþróun jafnréttis riði til falls og að árangur sem unnist hafi með baráttu hafi tapast á ný. Frekari árangri stafi hætta af þrálátum ójöfnuði, loftslagsvánni, átökum og ógnvekjandi framgangi pólitískra afla sem byggi á sundrungu.
Phumzile Mlambo-Ngcuka forstjóri UN Women gerði skýrsluna að umtalsefni í ræðu sinni á fundinum um Alþjóðlega kvennadaginn í New York.
„Niðurstaða skýrslunnar er að konur skipa 25% valda- og áhrifastaða í heiminum: 75% þingsæta eru skipuð körlum, 73% stjórnunarstaða eru í höndum karla og 70% samningamanna í loftslagsmálum eru karlar. Þannig að við verðum að gera okkur að góðu að þröngva okkur inn í 20-25% valdarýmisins. En í dag ætlum við að brjótast úr. Við viljum fylkja liði í átt til 50% marksins, því 50% er það sem skiptir máli. Og við munum vinna saman að því að ná þessum 50%.“
Sjá nánar um Alþjóðlega kvennadaginn
Mamma af hverju ertu að meiða mig?