
Friðargæsla Sameinuðu þjóðanna 75. Friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna hafa í 75 ár unnið að því að bjarga mannslífum og breyta lífi berskjaldaðs fólks til hins betra á mörgum af viðsjárverðustu stöðum heims. Frá 1948 hafa tvær milljónir hemanna þjónað við að hjálpa ríkjum í umskiptum frá stríði til friðar.
„Í starfi friðargæsluliða Sameinuðu þjóðanna felst hjartsláttur skuldbindingar okkar við friðsamari heim,“ segir António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna í ávarpi í tilefni af Alþjóðlegum degi friðargæsluliða 29.maí. Sá dagur markar einnig 75 ára afmæli friðargæslunnar.

„Í 75 ár hafa þeir stutt fólk og samfélög sem átt hafa undir högg að sækja vegna átaka og óróa um víða veröld.“
Friðargæsluliðar vinna að framgangi pólitískra lausna við hlið heimamanna á hverjum stað. Þeir koma í veg fyrir átök, vernda óbreytta borgara, efla mannréttindi og réttarríki og hlúa að sjálfbærum friði.

Sá vandi sem friðargæsluliðar glíma við eykst sífellt. Spenna á alþjóða vettvangi fer vaxandi, deilur eru margslungnari og dreifing rangra upplýsinga og falsfrétta ógnar öryggi þeirra. Þeir standa frammi fyrir vaxandi togstreitu og sundrungu á heimsvísu, auk staðnaðra friðarferla.
Þrátt fyrir þessar hindranir halda friðargæsluliðar áfram starfi sínu ásamt samstarfsfólki sínu í sameiginlegri friðarviðleitni.

Þema 75 ára afmælisins er „Friður byrjar hjá mér“. Í því felst viðurkenning á þjónustu og fórnum friðargæsluliða fyrr og nú, þar á meðal þeirra 4200 sem látist hafa í þjónustu friðar undir fána Sameinuðu þjóðanna. Jafnframt er hin þrautseigu samfélög sem friðargæsluliðar þjóna, heiðruð fyrir friðarstarf sitt þrátt fyrir alla erfiðleika.
Í samnefndri herferð er einnig hvatt til þátttöku í alþjóðlegri hreyfingu í þágu friðar. Hver og einn einstaklingur kemst ekki langt, en sameinuð erum við kröftugt breytingar-afl.
Í hnotskurn:
- Friðargæsluverkefni fela í sér að vernda almenning, koma í veg fyrir átök og efla mannréttindi.
- Frá 1948 hafa rúmlega tvær milljónir friðargæsluliða frá 125 ríkjum þjónað málstað friðar í 71 ólíkum sveitum.
- Árið 2023 starfa 87,000 þúsund konur og karlar frá 125 ríkjum í 12 friðargæsluverkefnum við að koma á friði í Afríku, Asíu, Evrópu og Mið-Austurlöndum.
- Fleiri en 4200 friðargæsluliðar hafa fórnað lífi sínu í friðarviðleitni undir fána Sameinuðu þjóðanna.
- Sjá nánar um Friðargæsluverkefni Sameinuðu þjóðanna hér.
,