Súdan. Fjöldi fólks sem lent hefur á vergangi innan landamæra Súdans hefur tvöfaldast á einni viku. Nú er talið að rúmlega 700 þúsund manns hafi flúið heimili sín og séu á flótta innanlands. Þessu til viðbótar hafa 150 þúsund manns flúið til nágrannaríkjanna.
Hafa ber í huga að meira að segja áður en núverandi átök brutust út fyrir um mánuði voru 3.7 milljónir á flótta innanlands.
António Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hefur harðlega fordæmt þjófnað í höfuðstöðvum Matvælaáætlunar samtakanna í Khartoum um helgina.
Nærri fjórðungi stolið
17,000 tonnum af matvælum var stolið á fyrstu dögum átakanna að andvirði 13 milljóna Bandaríkjadala. Þó er talið að þessar tölur hækki til muna þegar vörutalning hefur farið fram.
WFP átti 80 þúsund tonna birgðir af korni og öðrum matvælum þegar átökin hófust 15.apríl. Farhan Haq talsmaður Sameinuðu þjóðanna minnir á að með ránum og gripdeildum verið almennir borgarar af lífsnauðsynlegri aðstoð.
Flestar ef ekki allar stofnanir Sameinuðu þjóðanna og samstarfsaðila þeirra í mannúðarmálum í Súdan hafa orðið fyrir barðinu á ránum og gripdeildum.
Síðustu tölur súdanska heilbrigðisráðuneytisins benda til að 604 hafi látist í átökunum og 5127 særst, en þess ber að geta að engar tölur er að fá frá sumum fylkjum landsins.