27 milljónir þræla í heiminum

 Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna segir að í heiminum í dag séu 27 milljónir fórnarlamba þrældóms. “Við verðum að rétta þeim hjálparhönd,” sagði Ban í ávarpi sínu á Alþjóðlegum degi afnmáms þrælahalds, 2. desember. 

Framkvæmdastjórinn lagði áherslu á að þótt þrælahald hefði formlega verið afnumið fyrir 200 árum, þá þrifust þessi yfirgengilegu mannréttindabrot enn. “Þótt þrælahald hafi verið bannað um langan aldur, er því miður enn sums staðar hefð fyrir því. Við höfum einnig því miður horft upp á nútímaform þrælahalds eins og sölu barna, skuldaþrældóm og mansal. Oft er í raun farið með farandverkamenn og húshjálp eins og þræla og sama máli gegnir um starfsfólk í byggingariðnaði, fataiðnaði og öðrum iðngreinum.” 

Ban lét í ljós áhyggjur sínar af því að ástandið kunni að versna vegna alþjóðlegrar efnahagskreppu. “Búast má við að fátæklingar sökkvi enn dýpra í fátækt og kunni því að verða að sætta sig við aðstæður sem minna á þrælahald. Þeir sem vitandi vits nota bágindi þessa fólks, verða að hámarka gróða sinn sem aldrei fyrr. Þeir neytendur sem þekkja kannski ekki afleiðingarnar, eru enn líklegri til að kaupa vörur sem eru framleiddar þar sem launakostnaður er óeðlilega lágur.”

Á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna gegn kynþáttahatri árið 2001 var því lýst yfir að þrælahald væri glæpur gegn mannkyninu. “Eftir nokkra daga munum við halda upp á sextugs afmæli Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna. Við verðum í sameiningu að tryggja að staðið sé viið það ákvæði að “engum skal haldið í þrældóm eða þrælkun,“ sagði framkvæmdastjórinn í ávarpi sínu.