Lykilstarfsmönnum og fólki í áhættuhópum í 145 ríkjum hafa verið tryggðar bólusetningar við COVID-19 á fyrri helmngi þessa árs.
Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHOI og samstarfsaðilar hennar tilkynntu 3.febrúar að þau myndu hjálpa ríkisstjórnum þessara landa að undirbúa bólusetningaráætlanir með því að gefa upp tímasetningar afhendingar fram í lok júní á þessu ári. Bólusetningarátakið er hluti af COVAX-frumkvæðinu sem Sameinuðu þjóðirnar eiga aðild að.
Eitt stærsta verkefni sögunnar
Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) hefur mikilvægu hlutverki að gegna við bólusetningar um allan heim. UNICEF segir í yfirlýsingu að þetta sé eitt umfangsmesta verkefni af þessu tagi sem um getur.
„Okkur verður að takast þetta,” segir Henrietta Fore forstjóri UNICEF. „Skrifstofur okkar um allan heim munu styðja við bak stjórnvalda á hverjum stað. Sérstaklega er mikilvægt eftir að tryggja að þau séu í stakk búin við að taka við bóluefni sem krefst ofurkælingar við geymslu.“ Heilbrigðisstarfsmenn þurfa þjálfun í því hvernig meðhöndla ber og geyma bóluefnið.
336 miljónir skammta AstraZeneca
Á fyrsta fjórðungi ársins mun 1.2 millónum skammta af Pfizer-BioNTech bóluefni verða dreift til 17 ríkja. Það er bóluefni sem þarfnast ofurkælingar. Alls hefur verið lofað 40 milljónum skammta til dreifingar.
Til viðbótar bíða 336 milljónir skammtar AstraZeneca/Oxford samþykktar Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar. Um leið og það liggur fyrir hefst dreifing til nærri allra ríkja sem hafa gengið til liðs við COVAX áætlunina frá Afganistan til Zimbabwe.
Alls mun þetta nægja til að bólusetja að meðaltali 3.3 af hundraði íbúa ríkjanna sem njóta góðs af áætluninni. Með þessu móti verður hægt að verja þá fyrir COVID-19 sem allra höllustum fæti standa, þar á meðal framlínustarfsfólk.
Sjá einnig hér.