134 ár í að konur nái körlum í launum

18.september er Alþjóða jafnlaunadagurinn.
18.september er Alþjóða jafnlaunadagurinn.

Jafnrétti kynjanna. Alþjóða jafnlaunadagurinn.

Ísland trónir á toppi jafnlaunalista heimsins fjórtánda árið í röð og státar eitt ríkja heims af því að konur fái yfir 90% af launum karla. 18.september er Alþjóða jafnlaunadagurinn.

Langt er í land með á heimsvísu að konur og karlar fái sömu laun. Miðað við núverandi þróun þarf að bíða í 134 ár til að jöfn laun kynjanna verði staðreynd.

Alþjóða jafnlaunadagurinn
Alþjóða jafnlaunadagurinn

Karlar þénuðu meira en konur í nærri öllum atvinugreinum af ýmsum ástæðum, þar á meðal vegna þrálátrar og hefðbundinnar skiptingar kynjanna á milli tiltekinna starfstétta; rofs í vinnuferli kvenna vegna barnsburðar, meiri vinnu þeirra við umönnun og á heimilum og ósanngjarnra launakerfa.

Kvennastéttir og karlastéttir

„Þrálátur aðskilnaður kynjanna í starfstéttum er hluti skýringarinnar,“ segir Ines Wagner rannsóknaprófessor við Oslóarháskóla í viðtal við vefsíðu UNRIC. „Þetta helst í hendur við lágt mat á þeim stéttum þar sem konur eru fjölmennastar. Erfitt hefur reynst að hækka laun kvenkyns starfsfólks til jafns við það sem tíðkast í sambærilegum geirum þar sem karlar eru fjölmennastir, jafnvel á Norðurlöndum.“

Alþjóða jafnlaunadagurinn
Alþjóða jafnlaunadagurinn

Samkvæmt skýrslu Alþjóða efnahagsmálavettvangsins (World Economic Forum) um kynjamisrétti (Global Gender Gap Report 2024) var hlutfall kvenna í stjórnenda- eða millistjórnendastöðum minna en 35% í helmingi ríkja heims á síðasta ári.

Rannsóknir sýna að laun taka breytingum þegar konur fjölmenna í nýjar stéttir.

Norðurlöndin tróna á toppnum
Norðurlöndin tróna á toppnum

Norðurlöndin fjögur af fimm efstu

Ekkert land hefur náð markmiðum um jöfn laun kynjanna en níu af tíu efstu ríkjunum hafa brúað að minnsta kosti 80% launabilsins. Þau eru auk Íslands, Noregur, Finnland, Nýja Sjáland, Svíþjóð, Þýskaland, Nikaragúa, Namibía og Litháen.

Fjögur ríki af fimm efstu eru á Norðurlöndum; Ísland er númer eitt (91.2%), Noregur tvö (87.9%), Finnland þrjú (86.3%) og Svíþjóð fimm (81.5%). Inn á milli er svo Nýja Sjáland í fjórða sæti (85.6%).

UN Women, Jafnréttisstofnun Sameinuðu þjóðanna er í fararbroddi í baráttunni fyrir jöfnum launum karla og kvenna.
UN Women, Jafnréttisstofnun Sameinuðu þjóðanna er í fararbroddi í baráttunni fyrir jöfnum launum karla og kvenna.

Enn hægt að bæta stöðuna

Norðurlönd geta þó gert betur þótt þau séu á toppnum í þessu tilfelli.

Meðal annars má nefna að enn er

  • launaójöfnuður og munur á tekjum karla og kvenna.
  • konur og karlar skipta sér á milli menntunarsviða og atvinnu. Laun eru lægri þar sem konur eru fjölmennastar og færri konur eru í háum stöðum.
  • félagslegar bætur eru tengdar fyrri tekjum og því eru eftirlaun, til dæmis, lægri hjá þeim sem eru á lægri launum eða verið skemur á vinnumarkaði, oft konur.

„Við sjáum tekjumuninn á því að þeir sem hafa mestar tekjur eru enn karlar en einnig í dreifingunni þar sem konur eru fjölmennastar í störfum sem eru tiltölulega lítils metnar,“ segir Ines Wagner.

Nurse with sick patient at Karolinska Hospital, Stockholm, Sweden.
Nurse with sick patient at Karolinska Hospital, Stockholm, Sweden. Photo: Yadid Levy/norden.org

Alþjóða jafnlaunadagurinn 18.september er haldinn í tengslum við langvarandi baráttu til að tryggja sömu laun fyrir sömu vinnu. Dagurinn tengist ennfremur mannréttindabaráttu Sameinuðu þjóðanna; þar með andspyrnu gegn hvers kyns mismunun, þar á meðal gegn konum og stúlkum.

  Vissur þú?

  • Í flestum ríkjum fá konur 70-90% af launum karla fyrir sams konar vinnu.
  • Árið 2010 var meðal-launabilið í aðildarríkjum OECD 17.6%.
  • Konur fá að meðaltali 17.5% lægri laun en karlar á ævinni í Evrópusambandsríkjunum.