Innrás Rússa í Úkraínu. Að minnsta kosti tíu þúsund óbreyttir borgarar hafa látist frá því Rússland gerðir allsherjar-innrás í Úkraínu í febrúar á síðasta ári. 560 börn eru á meðal hinna látnu. Átján þúsund og fimm hundruð hafa særst. Þessar tölur eru frá Mannréttinda-eftirlitssveit Sameinuðu þjóðanna í Úkraínu.
Eftirlitssveitin segir í nýju yfirliti að þessar tölur hafi verið staðfestar með aðferðarfræði hennar, en varar við því að líklegt sé að þær séu hærri sökum þess hve erfitt og tímarfrekt getur reynst að sannreyna.
„Það eru ömurlegt tímamót að tala látinna sé orðin hærri en tíu þúsund á meðal óbreyttra borgara,“ segir Danielle Bellyfirmaður eftirlitssveitarinnar. Stríðið hefur nú staðið yfir í rúma 20.mánuði. „Hætt er við því að það sé að þróast yfir í afar langvarandi stríð og mannslífum verði fórnað í svo stórum stíl að sársaukafullt er að reyna að gera sér það í hugarlund.“
Eftirlitssveitin bendir á að verulegur fjöldi mannfalls verður fjarri víglínunni. Helsta ástæðan er sú að rússneskar sveitir hafa beitt langdrægum flugskeytum og gert árásir á skotmörk á þéttbýlissvæðum um allt landið.
„Nærri helmingur mannfalls á meðal óbreyttra borgara síðustu þrjá mánuði er fjarri víglínunni. Af þeim sökum er enginn staður í Úkraínu fyllilega öruggur,“ sagði Bell.
Átta þúsund óbreyttir borgarar létust á fyrsta ári innrásarinnar.
Fundur Öryggisráðsins
Á sama tíma og eftirlittsveitin kynnti yfirlit sitt, hittist Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna á fundi í New York til að ræða stöðuna í Úkraínu.
Miroslav Jenča aðstoðar-framkvæmdastjóri pólítisku deildar samtakanna varaði við því á fundinum að árásir á óbreytta borgara og borgaralega innviði kunni að færast í vöxt þegar vetur gengur í garð.
„Afleiðingarnar fyrir milljónir Úkraínumanna verða skelfilegar nú þegar þeir búa sig undir annan stríðsveturinn,“ sagði hann.