Alþjóðlegur dagur Friðargæsluliða Sameinuðu þjóðanna. Friðargæslusveitir Sameinuðu þjóðanna hafa bjargað mannslífum í 76 ár á ýmsum af hættulegustu stöðum heims.
Rannsóknir sýna að því fleiri friðargæsluliðar Sameinuðu þjóðanna sem eru á vettvangi, því færri óbreyttir borgarar týna lífi, ofbeldi er minna og líkur á friði eru meiri.
Alþjóðlegur dagur Friðargæsluliða Sameinuðu þjóðanna er haldinn 29.maí til að beina kastljósi að ómetanlegu starfi her- og lögreglumanna og óbreyttra borgara undir fána samtakanna í þágu friðar í rúman sjö og hálfan áratug.
Hér eru tíu staðreyndir um Friðargæslu Sameinuðu þjóðanna:
11 friðargæsluverkefni
Ellefu friðargæsluverkefni eru nú í gangi. Hlutverk þeirra er að aðstoða stríðshrjáð ríki við að skapa varanlegan frið.
5 eru í Afríku: Vestur-Sahara (MINURSO), Lýðveldinu Kongó (MONUSCO), Mið-Afríkulýðveldinu (MINUSCA), Suður- Súdan (UNMISS) og á Abyei svæðinu á mörkum Súdan og Suður-Súdan (UNISFA)
2 eru í Evrópu: Kosovo/Serbía (UNMIK) og Kýpur (UNFICYP).
3 eru í Mið-Austurlöndum: Líbanon (UNIFIL), Ísrael/Sýrland (UNDOF), Mið-Austurlönd (UNTSO)
1 er í Asíu: Indland/Pakistan: (UNMOGIP)
6 124
er fjöldi einkennisklæddra Nepalbúa í þjónustu Friðargæslusveita Sameinuðu þjóðanna. Engin þjóð sendir jafnmarga til starfa í friðargæslusveitunum og Nepal. Indland, Bangladesh og Rúanda koma skammt á eftir með um og yfir sex þúsund hvert ríki.
0.5% af hernaðarútgjöldum
Vissir þú að útgjöld Friðargæslu Sameinuðu þjóðanna nema aðeins 0.5% af hernaðarútgjöldum í heiminum?
Útgjöld friðargæslusveitanna eru 6.1 milljarður Bandaríkjadollara á ári. Það er álíka og útgjöld Danmerkur og Sviss til varnarmála en töluvert minna en útgjöld til lögreglunnar í New York eða kostnaðar við Ólympíuleikana í París (10 milljarðar).
28%
Bandaríkin standa straum af tæplega 28% útgjalda við friðargæsluna en næstir á eftir þeim koma Kínverjar með rúm 15% 15% og Japanir með 8.5%.
2 milljónir “blárra hjálma”
Síðastliðin 76 ár hafa tvær milljónir karla og kvenna frá 124 ríkjum sett á sig hinn bláa einkennis-hjálm Sameinuðu þjóðanna. Þau hafa starfað í 71 friðargæsluverkefni. Fjöldinn samsvarar til íbúa Norður-Makedóníu, Lettlands eða Slóveníu; Parísar, Vínarborgar eða Hamborgar.
72 255
er fjöldi núverandi friðargæsluliða. Það er heldur meira en íbúafjöldi Grænlands (60 þúsund) og Cayman eyja (68 þúsund), en álíka og helmingur Reykjavíkurbúa eða allir íbúar Esbjerg í Danmörku.
Þeir kæmust fyrir á meðalstórum íþróttaleikvöngum á borð við Ólympíuvellina í Aþenu og Róm, London Stadium, eða Stade de Vélodrome í Marseille.
216
Finnland er langrausnarlegast Norðurlanda í að útvega friðargæslunni mannskap. Nú eru 216 Finnar að störfum við friðargæslu. Noregur sendir fimmtíu manns, Svíar 33 og Danir 10. Ekki einn einasti Íslendingur starfar hjá Friðargæslu Sameinuðu þjóðanna á vegum stjórnvalda.
4 370
er fjöldi þeirra sem látist hafa við skyldustörf á vegum friðargæslunnar frá upphafi.
Af alls 4 370 friðargæsluliðum sem látist hafa, hafa 1601 látist af völdum veikinda, 1403 í slysum og 1130 í árásum. Rúmlega þrjú þúsund voru hermenn.
3 x konur
Friðargæsla Sameinuðu þjóðanna stefnir að því að þrefalda fjölda kvenna fyrir 2028. Nú eru 6 249 konur starfandi sem her- eða lögreglumenn, eða 9.7 % heildarfjöldans.
1 Nobel
Friðargæslusveitir Sameinuðu þjóðanna hafa einu sinni fengið Friðarverðlaun Nóbels.