eftir Gunilla Carlsson, Þróunarsamvinnuráðherra Svíþjóðar og Karen AbuZayd, forstjóra Palestínuflóttamannahjálpar Sameinuðu þjóðanna
* * *
Ástandið á Gasa var þegar orðið mjög alvarlegt fyrir 27. desember í kjölfar 18 mánaða herkvíar, elflaugaárása Palestínumanna og árása Ísraelsmanna. Skortur var á matvælum, eldsneyti og lyfjum. 75% þeirrar einnar og hálfu milljónar sem býr á Gasa lifir á matvælaaðstoð Sameinuðu þjóðanna.
Þótt það muni taka nokkurn tíma að meta þjáningar fólks og þörf á mannúðaraðstoð, er óhætt að fullyrða að þriggja vikna ákafar árásir Ísraela á Gasa hafa haft miklar afleiðingar í för með sér. Þrettán hundruð og fjórtán, manns, þar af fjögur hundruð og tólf börn létust, fimm þúsund og þrjú hundruð særðust, þar af átján hundruð fimmtíu og fimm börn. Meir en fimmtíu byggingar Sameinuðu þjóðanna, aðallega skólar, skemmdust.
Fólk hefur snúið heim eftir tuttugu og tveggja daga bardaga. Margir hafa hins vegar ekkert heimili lengur. Um það bil 15% allra bygginga á Gasa voru eyðilagðar.
Talið er að það þurfi hundruð milljóna dollara til að mæta mannúðarþörfum og líklega kostar endurreisnin milljarða dollara. En verkefnið sem blasir við okkur, er ekki aðeins að veita mannúðaraðstoð og leggja enduruppbyggingunni lið. Þetta snýst einnig um stuðla að mannsæmandi tilveru íbúanna og reyna að skapa raunsæja og jákvæð framtíðarsýn. Þetta er nauðsynlegt til að stemma stigu við ofbeldi og öfgum.
Eins og ævinlega í átökum, eru það börn og unglingar sem líða mest. Á Gasa eru 56% íbúanna börn. Þetta þýðir að skapa þarf framtíðarsýn fyrir 850 þúsund börn. Þau eru að vísu vön átökum og skorti en síðustu átök hafa fært þeim nýjar hörmungar. Sumir hafa misst ættingja og heimili og aðrir hafa orðið fyrir andlegu reiðarslagi.
Við höfum í sameiningu skilgreind tíu skref til að skapa börnunum á Gasa framtíð.
1: Mikilvægt er að fullnægja brýnustu þörfum. Útvega verður matvæli, lyf, eldsneyti, drykkjarvatn og hreinlæti auk húsaskjóls fyrir heimilislausa. Endurreisa verður heimili.
2: Fjarlægja verður ósprungnar sprengjur og endurreisa mannvirki. Skotfæri sem ekki hafa sprungið geta grandað fólki og limlest um ókomin ár þótt átökum sé lokið. Mikill skortur á byggingarefni hefur staðið Flóttamannahjálpinni fyrir þrifum frá því í júní 2007. Verkefnum að andvirði 93 milljóna Bandaríkjadala er ólokið vegan þessa.
3: Gera verður allt sem mögulegt er til að líf barna verði eðlilegt að nýju. Efla þarf verkefni á sviði andlegs stuðnings sem Flóttamannahjálpin, Svíþjóð og ýmsar stofnanir Sameinuðu þjóðanna vinna nú þegar að.
4: Koma þarf börnum í skóla á ný og endurreisa allt skólastarf eins fljótt og auðið er. Helmingur barna á Gasa, gengur í skóla sem Flóttamannahjálpin rekur eða 440 þúsund börn. Skólarnir skapa börnunum líka reglubundið líf, félagslega virkni og hreinlega flótta frá taugaspenntu umhverfi.
5: Leyfa verður börnunum á Gasa að vera börn. Hundruð þúsunda barna hafa undanfarin tvö ár tekið þátt í Sumarleikum Flóttamannahjálparinnar. Þau hafa getað losnað undan álagi fátæktar og ofbeldis með því að taka þátt í kennslu- og tómstundaverkefnum. Flóttamannahjálpin stefnir að því að bjóða upp á álíka starf 2009, þrátt fyrir augljósa erfiðleika.
6: Náið samráð er nauðsynlegt við skipulagningu alþjóðlegrar mannúðaraðstoðar. Það er skylda allra sem starfa á þessu sviði að forðast tvíverknað bæði við mat og í aðstoð. Sameinuðu þjóðirnar leika lykilhlutverk á þessu sviði.
7:Halda verður áfram þróunarsamvinnu með palestínsku stjórninni til að efla umbóta og þróunarstarf hennar. Efla verður uppbyggingu ríkisvalds með því að hlúa að lýðræðislegum stofnunum, þar á meðal í dómskerfinu, og í borgaralegu samfélagi. Efla þarf sjálfbæra staðbundna þróun, þjónustu sveitarfélaga, aðgang að hreinu vatni, hreinlæti og orku. Allt er þetta nauðsynlegt til að Gasa rétti úr kútnum og öðlist langtíma stöðugleika og þróist á lífvænlegan hátt.
8: Binda verður enda á efnahagslega einangrun Gasa. Opna verður landamærastöðvar fyrir fólki og vörum, þar á meðal byggingarefni. Á sama tíma verður að hindra vopnasmygl til Gasa. Þörf er á innflutningi neysluvarnings en einnig iðnaðarvöru. Efnahagslíf Gasa verður ekki lífvænlegt nema að landamæri séu opin jafnt fyrir útflutningi sem innflutningi.
9: Vopnahléið verður að virða og efla. Ályktun Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna númer 1860 verður að hrinda í framkvæmd í heild sinni.
10: Nauðsynlegt er að endurvekja friðarferlið með það fyrir augum að stofnað verði palestínskt ríki. Markmiðið er sem fyrr: heildstætt samkomulag í Miðausturlöndum og stofnun sjálfstæðs Palestínuríkis sem lifi við hlið Ísraels í friði og öryggi.
Við megum aldrei missa sjónir á þessu markmiði þrátt fyrir erfiðleikana sem við er að glíma og þjáningunum sem fylgt hafa átökunum. Þetta skuldum við palestínsku börnunum sem við þjónum. Þau hafa sama rétt og börn í Ísrael og annars staðar til framtíðar án ótta, í friði, öryggi og reisn.
************************************************************************
Bakgrunnur: Palestínu-flóttamannahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) hefur lengi gegnt lykilhlutverki í þessum heimshluta og á Gasa. Flóttamannahjálpin hefur útvegað mannúðaraðstoð og sinnt menntun, lágmarks heilsugæslu, örlánastarfsemi og atvinnusköpun. 60 árum eftir stofnun flóttamannahjálparinnar, stendur UNRWA nú frammi fyrir nýrri áskorun: að vera í fararbroddi í endurreisn Gasa. Svíþjóð er reiðubúin til að styðja UNRWA í þeirri viðleitni.
Svíþjóð hefur um árabil veitt palestsínsku þjóðinni mannúðaraðstoð, ekki síst með fjárhagslegum og pólitískum stuðningi við Flóttamannahjálpina, aðrar fjölþjóðastofnanir og óháð félagasamtök. Svíar eru þriðji stærsti fjármögnunaraðili UNRWA og veita aðstoð sína án “eyrnamerkinga” eða sérstakra skilyrða til að veita UNRWA sem mestan sveigjanleika við notkun fjárins.