Svona lítur setningin „hvað þýðir samkomubann” út á tælensku:
การห้ามชุมนุมคืออะไร .
Landlæknisembættið hefur verið í fararbroddi í baráttunni gegn útbreiðslu kórónaveirunnar á Íslandi.
Landlæknir, sóttvarnarlæknir og almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra hafa fengið verðskuldað lof fyrir þróttmikið upplýsingastarf á daglegum upplýsingafundum sem túlkaðir hafa verið á táknmál jafnóðum.
Þá hefur vefsíðan www.covid.is verið afar þýðingarmikil kjölfesta þar sem helstu upplýsingum er komið á framfæri á einfaldan og skiljanlegan hátt.
En ekki er nóg með að síðan sé á íslensku, heldur eru helstu upplýsingar á átta tungumálum til viðbótar.
Hægri til vinstri
Svona lítur til dæmis orðið sóttkví út á arabísku – gleymið ekki að lesa frá hægri til vinstri:
ما الحجر الصحي؟
Kunnuglegar upplýsingar um handþvott og sóttkví, einangrun og samkomubann eru pólsku, arabísku, ensku, spænsku, kúrdísku, tælensku, arabísku og litháísku auk íslensku.
Sjálfsagt eru Norðurlandabúar, Þjóðverjar, Ítalir og Frakkar taldir svo sleipir í ensku að óþarfi sé að flagga tungum þeirra.
Óneitanlega góð tilbreyting líka fyrir Íslendinga að lesa frá hægri til vinstri og getum við ekki öll verið sammála um að „hvað er samgöngubann?” líti vel út á kúrdísku
مەبەست چییە لە قەدەغەی کۆبوونەوە ؟
og betur en öll þau „forbud”, „interdiction”, og „Verbot” sem boðið er upp á í tungumálaflóru nágrannaþjóðanna.
Frá fagurfræðilegu sjónarhorni, er ekki laust við að Farsi skjóti meira að segja ástkæra ylhýra málinu ref fyrir rass : ویروس COVID19 چیست؟
Kórónaveiran spyr ekki um vegabréf og þjóðtungu og því mikil þörf á upplýsingum til dæmis á pólsku fyrir þá tugi þúsunda Pólverjar sem heiðra Ísland með nærveru sinni. W JAKI SPOSÓB ZARAŻAM? – Hvernig forðast ég smit ?
Þetta þurfum við öll að vita og móðurmálið er alltaf best. Við erum öll í þessu saman.